Viðskipti innlent

Landsbankinn að baki Á allra vörum

Landsbankinn er bakhjarl landssöfnunarinnar „Á allra vörum.“  Að þessu sinni verður safnað fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna en árlega greinast um 70 börn með hjartagalla á Íslandi.

Í tilkynningu segir að söfnunin hefjist í dag með sölu á sérstökum „Á allra vörum“ varaglossum frá Dior og verða þau seld hjá viðurkenndum Dior snyrtivöruverslunum um land allt. Starfsmenn Landsbankans hafa einnig lagt söfnuninni lið, en nú þegar  hafa starfsmenn keypt 400 varagloss til styrktar Neistanum.

Þann 26.ágúst verður landssöfnun í beinni útsendingu á Skjá einum. Markmið hennar er að safna fé til kaupa á nýju hjartasónartæki fyrir Barnaspítala Hringsins  og rennur allt söfnunarféð til þess. Með nýja tækinu verður hægt að greina hjartagalla ítarlegar en áður, en tækið sem nú er í notkun er komið til ára sinn og knýjandi þörf er á endurnýjun.

Um helmingur þeirra barna sem greinast með hjartagalla hérlendis þurfa að gangast undir aðgerð og sum barnanna oftar en einu sinni. Þriðjungur þessara aðgerða eru gerðar hérlendis. Sú fyrsta var gerð 1990 og síðan hafa verið framkvæmdar tæplega 100 aðgerðir á Íslandi.

Hægt er að styrkja söfnunina með beinum fjárframlögum. Reikningsnúmer hennar er:  101-26-55555 og kt.: 510608-1350.

Markmið Neistans er að styðja við foreldra hjartveikra barna og að veita upplýsingar um hjartasjúkdóma barna og hjartagalla, meðferð þeirra og réttindi foreldra og forráðamanna barnanna. Formaður Neistans er Guðrún Bergmann Franzdóttir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×