Viðskipti innlent

Halli 41 milljarði yfir áætlun

efnahagsmálTekjujöfnuður ársins 2010 var neikvæður um 123 milljarða króna, sem er 41 milljarði króna verri afkoma en gert var ráð fyrir í fjárheimildum ríkisins. Hallinn nemur 26 prósentum af heildartekjum ársins og 8 prósentum af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í ríkisreikningi sem kynntur verður í dag.

Tekjuáætlun stóðst nokkurn veginn, en gjöldin voru 42 milljörðum króna hærri en gert var ráð fyrir. Munar þar mest um 33 milljarða viðbótarframlag til Íbúðalánasjóðs. Tekjujöfnuður ársins 2009 nam 139 milljörðum króna og staðan á ríkisreikningi fer því batnandi.

Tekjur ársins 2010 urðu alls 479 milljarðar króna, en það nemur 31 prósenti af landsframleiðslu ársins. Þær jukust um 39 milljarða frá árinu 2009, þegar þær voru 440 milljarðar króna.

Aukningin skýrist að mestu leyti af tryggingargjöldum, sem eru 18 milljarðar, og skattar á tekjur og hagnað einstaklinga voru rúmum 5 milljörðum króna hærri 2010 en árið áður. Skattar á tekjur og gjöld lögaðila lækkuðu hins vegar um 13 milljarða króna milli ára.

Gjöld ríkissjóðs árið 2010 námu 601 milljarði króna og voru 42 milljörðum króna hærri en fjárheimildir gerðu ráð fyrir. Gjöldin jukust um fjögur prósent frá árinu 2009.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að í grófum dráttum hafi náðst sá árangur sem að var stefnt varðandi rekstur ríkisins árið 2010. Óreglulegir liðir séu hins vegar hærri, en þar muni mest um framlagið til Íbúðalánasjóðs.

„Það framlag verður að afskrifa þar sem fjárhagsstaða sjóðsins býður ekki upp á að það sé eignfært. Það er auðvitað dálítið kjaftshögg sem bókhaldslega kemur á ríkið.“

Steingrímur segir að sá árangur sem að var stefnt, að draga úr útgjöldum og halda uppi tekjum, hafi fyllilega náðst, ef eitthvað er heldur betur árin 2009 og 2010 en áætlanir hafi gert ráð fyrir.

„Hið sama má segja um það sem af er þessu ári. Eftir fyrstu sex mánuði erum við vel á áætlun. Tekjur eru heldur yfir áætlun og útgjöld undir. Allt tal og hræðsluáróður manna um eitthvað annað er einfaldlega á vanþekkingu eða misskilningi byggt.“- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×