Viðskipti innlent

Íhuga skuldabréf til langs tíma í erlendri mynt

Ríkisstjórnin er að íhuga útboð á ríkisskuldabréfum í erlendri mynt til lengri tíma en 5 ára eins og var í síðasta útboðinu þar sem bréf fyrir milljarð dollara seldust.

Þetta kemur fram í viðtali við Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra á Bloomberg fréttaveitunni en eftirspurnin í fyrrgreindu útboði var tvöföld á við framboðið.

„Við erum mjög ánægð með hvernig til tókst og hve velheppnað útboðið var,“ segir Steingrímur. „Útgáfa á bréfum með lengri líftíma er möguleiki sem við erum að skoða náið.“

Fram kemur í frétt Bloomberg að skuldatryggingaálag Íslands er nú lægra en bæði Ítalíu og Spánar sem eru fjórðu og fimmtu stærstu hagkerfin á evrusvæðinu.

Steingrímur segir að ekki verði farið í nýtt skuldabréfaútboð alveg á næstunni þar sem markaðsaðstæður eru erfiðar í augnablikinu. "Markaðurinn er ekki vænlegur núna," segir Steingrímur. "Óstöðugleikinn í Evrópu þýðir að jafnvel útgefendur með góðar lánshæfiseinkunnir hreyfa sig ekki."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×