Viðskipti innlent

Marel sýknað af 650 milljóna kröfu Glitnis

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Marel hf.  af kröfu Glitnis vegna vanefnda á fimm afleiðusamningum. Í öllum tilvikum var um að ræða vaxta- og gjaldmiðlasamninga sem Marel gerði til að verjast gengisáhættu.

Málið snérist um hvernig standa bæri að uppgjöri samningana. Samkvæmt þeirri uppgjörsleið sem Glitnir taldi rétta áleit bankinn að Marel skuldaði sér tæpar 4 milljónir evra eða um 650 milljónir kr.

Í niðurstöðum dómsins segir að ágreiningur aðila snýst um uppgjör svokallaðra afleiðusamninga en þeir gerðu með sér ýmsa slíka samninga. Þeir samningar, er mál þetta varðar, voru vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamningar en með slíkum samningum er átt við samninga þar sem aðilar skiptast á höfuðstól tveggja mynta á ákveðnu gengi í upphafi samnings og í framtíðinni og skiptast jafnframt á vaxtagreiðslum yfir ákveðið tímabil.

Fram hefur komið í málinu að á árinu 2006 fékk Marel lán að fjárhæð sex milljarðar króna hjá Glitni. Vextir af því láni skyldu greiðast á sex mánaða fresti, í febrúar og ágúst ár hvert. Tekjur Marel eru 99% í erlendri mynt og til þess að minnka gengisáhættu í sambandi við lánið gerði Marel skiptasamning við Glitni til þess að hafa jafnan til ráðstöfunar íslenskar krónur á gjalddögum lánsins í febrúar og ágúst og þannig hugðist stefndi tryggja sig gagnvart skuldbindingum sínum við Glitni vegna lánsins.

Síðan segir í dóminum að það var Glitnir sem vanefndi samningana fimm og má það rekja til falls bankans haustið 2008 en þá voru samningarnir enn í gildi og átti Glitnir raunar að greiða Marel vexti á gjalddaga í febrúar 2009 sem bankinn gerði ekki.

Í dóminum segir að við þessa vanefnd Glitnis féll sú gjaldeyrisvörn sem Marel taldi sig hafa tryggt með gerð framangreindra vaxta- og gjaldmiðlaskiptasamninga. Fyrirsjáanleg vanefnd varð strax við fall bankans 6. október 2008 og raunveruleg vanefnd á gjalddaga 8. febrúar 2009. Marel lýsti því hins vegar yfir í tvígang að hann vildi efna samningana fyrir sitt leyti.

Niðurstaðan varð því að Marel skyldi sýknað af öllum kröfum Glitnis og var Glitni jafnframt gert að greiða Marel 1,5 milljónir kr. í málskostnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×