Viðskipti innlent

Fá leyfi til þess að stækka Hellisheiðarvirkjun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hellsiheiðarvirkjun.
Hellsiheiðarvirkjun.
Orkuveita Reykjavíkur hefur fengið virkjunarleyfi vegna stækkunar Hellisheiðarvirkjunar um 90 megavött. Orkan verður seld til Norðuráls.

Raforkuframleiðsla Hellisheiðarvirkjunar eykst við þetta úr 213 megavöttum upp í 303 megavött og fer hún þar með upp fyrir Búrfellsvirkjun, sem er 270 megavött, og verður næst stærsta virkjun landsins, á eftir Kárahnjúkavirkjun, sem er 690 megavött.

Hellisheiðarvirkjun getur í raun reiknast enn stærri því heitavatnsframleiðsla hennar telst nú þegar vera 133 megavött og getur aukist í 400 megavött.

Framkvæmdir við stækkunina á Hellisheiði eru langt komnar og byrjað að keyra aðra vélina en raforkusala frá þeim á að hefjast í haust, 1. september og 1. október, að sögn Ingólfs Hrólfssonar, sviðsstjóra hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Kaupandi þeirra 90 megavatta sem þá bætast við er Norðurál. Þar af fara 35 megavött í yfirtöku á samningi sem HS Orka hafði við Norðurál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×