Viðskipti innlent

Jarðboranir hf. í opið söluferli

Miðengi ehf., eigandi alls hlutafjár í Jarðborunum hf.,  hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf.  að annast formlegt ferli sem lýtur að mögulegri sölu á allt að 100% hlut í Jarðborunum hf., sem er eitt stærsta fyrirtæki heims á sviði jarðhitaborana.

Í tilkynningu segir að söluferlið sé opið öllum áhugasömum fjárfestum sem uppfylla skilyrði þess að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti, auk aðila sem búa yfir fullnægjandi þekkingu og reynslu og geta sýnt fram á eiginfjárstöðu umfram 500 milljónir kr.

Seljandi áskilur sér þó rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu, m.a. í þeim tilvikum þegar fyrir hendi eru lagalegar takmarkanir á því að fjárfestir eignist ráðandi hlut í félaginu, svo sem vegna samkeppnisreglna.

Áhugasömum fjárfestum er bent á að hafa samband við Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka í síma 440 4000 eða með því að senda tölvupóst á netfangið id2011@islandsbanki.is. Áhugasamir fjárfestar þurfa að fylla út trúnaðaryfirlýsingu ásamt því að leggja fram nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem staðfesta að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Í kjölfarið fá fjárfestar afhentar frekari upplýsingar um tímasetningar og skilmála söluferlisins auk upplýsinga um fjárhag og starfsemi félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×