Viðskipti innlent

Sjómannafélagið áfrýjar gengisdómi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Dómnum hefur verið áfrýjað.
Dómnum hefur verið áfrýjað.
Sjómannafélag Íslands hefur áfrýjað máli gegn Arion banka vegna ofgreiðslu af húsnæðisláni. Í febrúar var Arion banki dæmdur til að greiða Sjómannafélagi Íslands tæpar sex milljónir króna vegna ólögmæts gengistryggðs fasteignaláns. Orlofssjóður Sjómannafélag Íslands keypti íbúð í Reykjavík og tók lán hjá Kaupþingi banka til að fjármagna kaupin. Veðskuldabréf var gefið út 17. júlí 2007, en lánið hljóðaði upp á 15 milljónir króna til tuttugu ára. Lánið var greitt upp hraðar en gert var ráð fyrir, eða á tæpum þremur árum, og námu þá raungreiðslur til bankans tæpum 37 milljónum.

Eftir gengisdóm Hæstaréttar um bílalán frá því í sumar hélt Sjómannafélagið því fram að gengistrygging fasteignalána væri ólögmæt og félagið hefði greitt um 20 milljónum of mikið af láninu miðað við samningsvexti.

Héraðsdómur féllst á rök Sjómannafélagsins og dæmdi Arion banka til að endurgreiða Sjómannafélaginu hluta til baka. Héraðsdómur taldi hins vegar að Arion banki hafi sýnt nægilega fram á það að hann hafi fyrst eignast kröfuna á hendur Sjómannafélaginu í janúar 2010, en áður átti Kaupþing banki kröfuna. Vegna þess hversu seint Arion banki eignaðist kröfuna bæri bankanum einungis að greiða 5,9 milljónir til baka af þeim 20 milljónum sem ofgreiddar höfðu verið. Við þetta er Sjómannafélagið ósátt og krefst hærri endurgreiðslna.

Arion banki krafðist hins vegar sýknu í málinu og gagnáfrýjaði þegar að ljóst var að Sjómannafélagið myndi áfrýja.  








Fleiri fréttir

Sjá meira


×