Viðskipti innlent

80 milljónir féllu beint á Eimskip vegna strands Goðafoss

Goðafoss strandaði í Noregi og mengaði fjörðinn.
Goðafoss strandaði í Noregi og mengaði fjörðinn.
Afkoma Eimskips er umfram væntingar fyrsta ársfjórðung þessa árs samkvæmt tilkynningu frá félaginu en félagið hagnaðist um tæplega milljarð eftir skatta.

Afkoma af reglulegri starfsemi var hinsvegar undir væntingum og er megin skýring þess kostnaður sem féll á félagið vegna strands Goðafoss í Noregi um miðjan febrúar, sem og 3% almennur samdráttur í flutningamagni í áætlanasiglingum á tímabilinu.

Strandið á Goðafossi er með stærri tjónum sem félagið hefur orðið fyrir á síðustu áratugum en félagið er vel tryggt og getur því vel mætt slíkum áföllum. En þrátt fyrir það féll um 80 milljónir króna beinn kostnaður á félagið á fyrsta ársfjórðungi vegna óhappsins.

Heildarvelta Eimskips samstæðunnar á fyrsta ársfjórðungi var 14,3 milljarðar ISK (EUR 90,2 m) samanborið við 12,5 milljarða ISK árið 2010 samkvæmt nýútgefinni fjórðungsskýrslu félagsins.

Rekstrarhagnaður (EBITDA) var um 2,1 milljarðar ISK, (EUR 13 m) en var 1,2 milljarðar ISK árið 2010. Hagnaður eftir skatta var 928 milljónir ISK (EUR 5,8 m) en var 202 milljónir ISK árið 2010.

Heildareignir félagsins í lok mars voru 45,7 milljarðar ISK (EUR 283 m) og er eiginfjárhlutfallið 59%.

Vaxtaberandi skuldir voru 11 milljarðar ISK (EUR 69 m).

Flutningamagn samstæðunnar í áætlanasiglingum dróst saman um 3% á fyrsta ársfjórðungi á milli ára en flutningamagn í alþjóðlegri frystiflutningsmiðlun Eimskips jókst um 7% á milli ára á sama tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×