Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag á ríkissjóð ekki verið jafn lágt í þrjú ár

Skuldatryggingarálag á ríkissjóð Íslands hefur lækkað verulega á síðustu vikum og hefur í raun ekki verið jafn lágt og um þessar mundir í um þrjú ár samkvæmt Morgunkorni Íslandsbanka.

Í lok dags í gær stóð álagið í 210 punktum (2,10%) samkvæmt gögnum úr Bloomberg-gagnaveitunni sem er 50 punktum lægra en það var um síðustu mánaðarmót.

Eins og áður segir hefur álagið ekki mælst lægra í nokkur ár, eða nánar tiltekið síðan um miðjan júní árið 2008. Telja má líklegt að niðurstaða stóru matsfyrirtækjanna þriggja, þ.e. Moody´s, Fitch og Standard&Poor´s (S&P) hafi sett sitt mark á þróunina á álaginu.

Þegar  horft er til einfalds meðaltals af skuldatryggingarálagi landa Vestur-Evrópu kemur upp úr dúrnum að álagið í lok dags í gær var hærra en álagið var á Ísland, eða um 216 punktar á móti 210 punktum.

Þetta hefur aðeins fimm sinnum áður gerst, a.m.k. síðan í byrjun árs 2008, og er innan við mánuður síðan þetta atvikaðist í fyrsta sinn.

Engu að síður er álagið á Ísland en hið fimmta hæsta á meðal ríkja Vestur Evrópu. Álagið er enn langhæst á Grikkland (1313 punktar), svo kemur álagið á Írland (623 punktar) og fast á hæla þess álagið á Portúgal (613).

Álagið á Spán er hið fjórða í þessari röðun og var í lok dags í gær í 242 punktum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×