Handbolti

Magnus Andersson: Japanir mjög hraðir

Henry Birgir Gunnarsson skrifar frá Linköping skrifar
Magnus Andersson er landsliðsþjálfari Austurríkis.
Magnus Andersson er landsliðsþjálfari Austurríkis. Nordic Photos/Getty Images

Austurríkismenn fengu á baukinn gegn Japan og af þeim leik þarf Ísland að læra. Fréttablaðið hitti Magnus Andersson, landsliðsþjálfara Austurríkis, í gær og spurði hann að því hvað bæri að varast hjá Japönum.

„Það ber margt að varast hjá Japan. Þeir voru mjög góðir gegn okkur og komu mér virkilega á óvart. Mitt lið fór eiginlega á taugum í leiknum og við gerðum allt of mörg mistök sem eyðilagði leikinn fyrir okkur," segir Andersson.

„Taktík þeirra kom mér ekki á óvart en hraðinn þeirra kom mér í opna skjöldu. Það er erfitt að glíma við svona hröð lið frá Asíu. Það er eitthvað sem mitt lið þekkir ekki. Varnarleikurinn þeirra er erfiður við að eiga."

Andersson segir að sér lítist ágætlega á íslenska liðið á mótinu og segir að því séu allir vegir færir ef liðið sleppur við stór áföll.

„Liðið hefur sýnt á síðustu mótum hvað það getur gert. Ef liðið sleppur við meiðsli hefur það alla burði til að fara í undanúrslit. Þeir eru mun betri núna en þegar við rúlluðum yfir þá í október."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×