Handbolti

Björgvin fer á kostum eftir hlé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sverre Jakobsson fagnar íslenska markverðinum í leikslok gegn Noregi.
Sverre Jakobsson fagnar íslenska markverðinum í leikslok gegn Noregi. Fréttablaðið/Valli

Íslenska handboltalandsliðið tryggði sér sigur í leikjunum á móti Austurríki og Noregi með frábærri frammistöðu í seinni hálfleik. Íslenska liðið vann seinni hálfleik þessara tveggja leikja samtals með fimmtán marka mun, skoraði 32 mörk á móti aðeins 17. Vörnin var frábær og í markinu var Björgvin Páll Gústavsson svo í svaka stuði.

Björgvin hafði aðeins varið 2 af 12 skotum í fyrri hálfleiknum á móti Austurríki (17 prósent) en mætti eins og nýr maður í seinni hálfleikinn þar sem hann varði 14 af 21 skoti Austurríkismanna sem gerir 67 prósenta markvörslu.

Björgvin hélt uppteknum hætti í leiknum á móti Noregi. Hann varði vel í fyrri hálfleik, 9 af 21 skoti (43 prósent) en fór síðan í miklu meira stuð í seinni hálfleiknum þar sem hann varði 12 af 22 skotum Norðmanna sem gerir 55 prósenta markvörslu.

Björgvin hefur því varið 61 prósent skota sem hafa komið á hann í seinni hálfleik í síðustu tveimur leikjum (26 af 43).

Björgvin tók 68 prósent langskota í þessum tveimur hálfleikjum (15 af 22) og varði 83 prósent skota úr hornum (83 prósent). Fimm af þeim sextán mörkum sem hann fékk á sig komu úr hraðaupphlaupum eða úr vítum sem er ekki hægt að ætlast til að markvörður verji nema í einstökum tilfellum.

Það hefur annars verið mikill stöðugleiki í markvörslu Björgvins á HM en hann hefur varið yfir 48% prósent skota eða meira í undanförnum þremur leikjum. Björgvin hefur alls varið 73 skot í leikjunum fimm eða 14,6 að meðaltali en hann hefur tekið 43,5 prósent skota sem hafa komið á hann.

Björgvin Páll í miklu stuði

Seinni hálfleikur á móti Austurríki


Varið frá skyttum: 90 prósent (9 af 10)

Varið úr hornum : 75 prósent (3 af 4)

Varið af línu: 100 prósent (2 af 2)

Samtals:: 67 prósent (14 af 21)

Seinni hálfleikur á móti Noregi


Varið frá skyttum: 50 prósent (6 af 12)

Varið úr hornum : 100 prósent (2 af 2)

Varið af línu: 43 prósent (3 af 7)

Samtals:: 55 prósent (12 af 22)

Samantekt:

Varið frá skyttum: 68 prósent (15 af 22)

Varið úr hornum : 83 prósent (5 af 6)

Varið af línu: 56 prósent (5 af 9)

Samtals:: 61 prósent (26 af 43)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×