Handbolti

Danir áfram með fullt hús á HM - unnu Pólverja 28-27

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Hansen í leiknum á móti Pólverjum í kvöld.
Mikkel Hansen í leiknum á móti Pólverjum í kvöld. Mynd/AFP
Danir halda áfram sigurgöngu sinni á HM í handbolta því þeir unnu 28-27 sigur á Pólverjum í fyrsta leik liðanna í milliriðli í kvöld. Danir eru nú eina liðið í keppninni sem hefur unnið alla sex leiki sína.

Danir voru þó næstum því búnir að missa niður gott forskot á lokamínútunum en héldu út og stigu stórt skref í átt að undanúrslitunum. Þeir hafa sex stig, Svíar eru í öðru sæti með fjögur stig og Króatar hafa síðan þrjú stig.

Pólverjar skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins en þá fór danska liðið í gang, skoraði næstu sjö mörk og komst í 7-2. Danir náðu mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik en voru 15-9 yfir í hálfleik.

Pólverjar skoruðu tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og bitu meira frá sér í seinni hálfleiknum. Danir voru með fimm marka forskot þegar tólf mínútur voru eftir en Pólverjum tókst að minnka það niður í eitt mark á þegar 20 sekúndur voru eftir. Danir héldu boltanum úr leikinn og tryggðu sér sjötta sigur sinn í röð í keppninni.

Hans Lindberg skoraði sex mörk fyrir Dani, Mikkel Hansen var með fimm mörk og þeir Lasse Boesen og Lars Christiansen skoruðu fjögur mörk hvor. Niklas Landin varði 19 skot í danska markinu. Tomasz Tluczynski og Mariusz Jurkiewicz skoruðu báðir sex mörk fyrir Pólverja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×