Viðskipti innlent

Þorkell nýr stjórnarformaður Framtakssjóðsins

Þorkell Sigurlaugsson.
Þorkell Sigurlaugsson.
Þorkell Sigurlaugsson verður stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands. Aðalfundur sjóðsins fór fram í dag en Ágúst Einarsson, sem gegnt hefur formennsku frá því að sjóðurinn var stofnaður í fyrra, gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarformennsku.

Í máli Ágústs kom fram að hagnaður Framtakssjóðsins á fyrstu fjórum mánuðum ársins nam 1,9 milljörðum króna. Á seinasta ári nam hagnaður 700 milljónum króna og er heildarhagnaður sjóðsins á fyrstu 16 starfsmánuðum því um 2,6 milljarðar króna.

Heildareignir Framtakssjóðs Íslands við árslok 2010 námu um 5,6 milljörðum króna og eigið fé var 4,9 milljarðar króna. Sjóðurinn er í eigu lífeyrissjóða auk Landsbanka Íslands og VÍS.

Þorkell er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann hóf störf hjá Háskólanum í Reykjavík árið 2004 sem framkvæmdastjóri þróunar og nýsköpunar og er nú framkvæmdastjóri fjármála og fasteignareksturs HR. Þorkell starfaði hjá Eimskip, lengst af sem framkvæmdastjóri og síðan sem framkvæmdastjóri hjá Burðarási, fjárfestingafélagi Eimskips til ársins 2004.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×