Handbolti

Sigurður: Þjóðverjarnir komu á óvart

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Ég hefði viljað sjá Arnór skjóta meira," sagði Sigurður Bjarnason.
„Ég hefði viljað sjá Arnór skjóta meira," sagði Sigurður Bjarnason. Mynd/Valli
„Þetta var alls ekki lélegur leikur hjá okkur. En það kom mér mikið á óvart hversu öflugan varnarleik Þjóðverjar voru að spila," sagði Sigurður Bjarnason, einn sérfræðinga Vísis um HM í handbolta.

Ísland tapaði í dag fyrir Þýskalandi, 27-24, í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar eftir að staðan hafi verið 15-13 í hálfleik, Þjóðverjum í vil.

„Þetta fór ekki eins og ég spáði," sagði Sigurður sem var vitanlega svekktur með niðurstöðuna.

„Vissulega hefðum við getað spilað grimmari varnarleik og við vorum ekki alveg nógu vel á tánum þar. En samt var hann nokkurn veginn í lagi."

„Það var fyrst og fremst gríðarlega öflugur varnarleikur Þjóðverja sem kom mér á óvart. Þar að auki voru þeir afar duglegir að hlaupa til baka í vörn og mættu okkur í hverri einustu aðgerð. Markvörðurinn þeirra átti einnig frábæran dag í markinu."

„Ég hefði viljað sjá Arnór skjóta meira. Ég hefði jafnvel líka viljað fá Aron í vinstri skyttuna og Snorra á miðjuna," bætti Sigurður við.

„Við höfum verið að spila vel á þessu móti og héldum í dag áfram að gera það sem hefur verið að ganga vel. En Þjóðverjarnir áttu einfaldlega frábæran leik."

Ísland vann Þýskaland í tveimur æfingaleikjum í Laugardalshöllinni í upphafi mánaðarins.

„Það voru margir sem sögðu þá að Þjóðverjarnir gætu ekki neitt. Það er auðvitað ekki rétt og nú mættu þeir gríðarlega vel undirbúnir til leiks. Þeir voru búnri að stúdera okkur í bak og fyrir. Þeir spiluðu hægar og notuðu línuna mikið. Eftir leikina heima sögðu margir að þeir ættu lélega línumenn en annað kom á daginn í dag."

„Þjóðverjar tóku okkur mjög alvarlega. Þeir unnu heimavinnuna sína mjög vel og voru reynslunni ríkari eftir leikina heima."

Logi Geirssson, einn sérfræðinga í þætti Þorsteins J. á Stöð 2 Sport, sagði eftir leikinn í kvöld að hann hefði saknað þess að sjá ekkert nýtt frá íslenska landsliðinu í kvöld.

„Ég er sammála því. En það eru takmörk fyrir því hversu oft við getum boðið upp á einhverjar nýjungar. Mér finnst að þetta hafi alls ekki verið lélegur leikur hjá okkur."

„Nú er staðan einfaldlega þannig að hver leikur er úrslitaleikur fyrir okkur. Við eigum Spánverja næst og það er að duga eða að drepast í þeim leik. Nú er þetta galopið og það er auðvitað bara skemmtilegt."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×