Handbolti

Utan vallar: Þrjár krónur frá mér til þín, Alexander

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Mynd/Valli

Það hefur ekki farið fram hjá mörgum hér á landi að íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur komið sér í gríðarlega sterka stöðu á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð. Liðið hefur unnið alla fimm leikina og er efst í milliriðlinum þegar keppni hefst í dag í Jönköping. Þýskaland, Spánn og Frakkland verða næstu mótherjar og það getur því allt gerst í framhaldinu.

Við tökum því sem sjálfsögðum hlut að landsliðið sé á stórmóti á þessum tíma árs enda góðu vön. Þetta er ellefta stórmótið frá árinu 2000 þar sem Ísland er í lokakeppni í janúar - og það þrettánda ef ÓL er talið með. Það er gjörsamlega búið að gjörspilla okkur með þessu góðgæti ár eftir ár.

Ég legg til að við veltum því aðeins fyrir okkur næst þegar Alexander Petersson skorar mark hvernig við sem þjóð tókum þátt í því marki. Borgum við 15-20 milljóna kr. kostnað HSÍ við þetta mót?

Fór hluti af þeim skatti sem við greiddum um síðustu mánaðamót í rekstur HSÍ? Hvernig virkar þetta eiginlega?

Svarið er: Þú leggur fram 80 kr. í Afrekssjóð á þessu ári í gegnum skattinn og þegar búið er að deila því á alla aðila fær Handknattleikssamband Íslands 3 kr. í sinn hlut frá þér. Þrjár krónur.

Ríkið leggur til 24,7 milljónir í sjóð sem nefnist Afrekssjóður ÍSÍ. Hluti af hagnaði íslenskrar getspár rennur einnig í Afrekssjóð og potturinn er því alls 44 milljónir kr. Eins og áður segir eru þetta 80 krónur frá hverjum Íslendingi en til samanburðar er þessi upphæð um 400 krónur á íbúa í Noregi og um 300 í Danmörku.

Það má reyndar minnast á það að norska karlalandsliðið fær 160 milljónir króna til ráðstöfunar á ári en við unnum þá í fyrrakvöld 29-22.

Heildarvelta HSÍ á árinu 2010 er um 150 milljónir kr. og hlutfallslega stunda jafnmargir handbolta hér á landi og í Noregi.

Ef ég væri ungur og efnilegur afreksmaður á Íslandi þá væri það mitt fyrsta verk að kanna hve langan tíma það tekur að skipta um ríkisfang. Íslenskir afreksíþróttamenn eru núll og nix þegar kemur að úthlutun úr sameiginlegum sjóðum okkar sem þjóðar - 24,7 milljónir á ári eru bara grín og jafnvel móðgun. Íþróttahreyfingin gerir sitt allra besta til að hlúa að afreksfólkinu en það er úr litlu að moða þegar allt okkar afreksfólk og landslið skipta á milli sín 44 milljónum kr. á ári.

Það er áhugavert fyrir alla að renna í gegnum Fjárlagafrumvarpið 2011. Það plagg er pólitísk forgangsröðun á sameiginlegum sjóði okkar. Afrekssjóður ÍSÍ fær 0,005% af heildarkökunni.

Það er eitthvað svo rangt við þetta allt saman - eða hvað? Það eru kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi sem taka ákvörðun um þessa hluti. Þeir eru þar af því að við kusum þá. Kannski hefur enginn þeirra áhuga á íþróttum - nema í janúar þegar það eru stórmót í handbolta. Þá eru allir í stuði. Áfram Ísland.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×