Handbolti

Umfjöllun: Hitað upp fyrir HM með tveimur sigrum á Þýskalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Stefánsson skoraði sjö mörk í dag.
Ólafur Stefánsson skoraði sjö mörk í dag. Mynd/Anton
Ísland vann í dag fjögurra marka sigur á Þýskalandi, 31-27, í æfingaleik í Laugardalshöll í dag. Liðin mættust einnig í gær og fóru þá íslensku strákarnir einnig með sigur af hólmi. Það er því ljóst að þeir mæta af fullum krafti og með sjálfstraustið í botni þegar flautað verður til leiks á HM í Svíþjóð í næstu viku.

Eins og í gær var það öflugur varnarleikur sem skóp sigurinn en markvarsla og fínn sóknarleikur átti einnig drjúgan þátt í honum.

Fyrri hálfleikur þróaðist á mjög svipaðan máta og í leik liðanna í gær. Þjóðverjar komust í 2-0 og voru með frumkvæðið fyrstu tíu mínúturnar eða svo.

Íslenska vörnin var þó öflug strax frá fyrstu mínútu og snerist leikurinn við þegar að hann fór að gefa af sér mark úr hraðaupphlaupum. Ísland skoraði alls fimm slík mörk í röð og breytti stöðunni úr 6-7 í 12-8.

Sóknarleikur íslenska liðsins var nokkuð mistækur í upphafi en batnaði fljótt. Þegar allt gekk upp hjá strákunum var ljóst að þýska liðið átti einfaldlega ekki roð í þá.

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari var búinn að ákveða að leyfa fleiri leikmönnum að spreyta sig fyrir leikinn og fengu þeir Aron, Þórir, Sigurbergur og Kári að spila síðustu tíu mínútur hálfleiksins.

Hreiðar Levý Guðmundsson kom svo inn í markið í síðari hálfleik en Björgvin hafði átt mjög fínan leik í þeim fyrri og varið alls sjö skot.

Síðari hálfleikur byrjaði nokkuð rólega eins og sá fyrri og náðu Þjóðverjarnir að minnka muninn í eitt mark á fyrstu tíu mínútunum. En nær komust gestirnir ekki og var það fyrst og fremst tveimur mönnum að þakka - Hreiðari Guðmundssyni og Aroni Pálmarssyni sem átti báðir glæsilegar rispur.

Hreiðar varði alls tíu skot í hálfleiknum og var með samtals 43 prósenta hlutfallsmarkvörslu. Aron skoraði fjögur mörk í síðari hálfleik, sex alls í leiknum, og lét mikið af sér kveða í öllum sóknarleiknum.

Annan leikinn í röð reyndist Michael Kraus okkur erfiður en hann sex fyrstu skotum sínum í síðari hálfleik. En hann var stöðvaður þegar að Hreiðar Levý varði frá honum víti og Ísland skoraði í næstu sókn. Strákarnir komust fjórum mörkum yfi og sigurinn var í höfn.

En þeir voru miklu fleiri sem spiluðu vel í dag. Snorri Steinn, Ólafur, Guðjón Valur, Róbert og Alexander skiluðu allir mjög flottum leik. Ingimundur og Sverre stóðu vaktina vel í vörninni en þeir náðu reyndar hvorugur að spila síðustu tíu mínútur leiksins. Ingimundur meiddist og Sverre fékk rautt fyrir þrjár brottvísanir. En það kom ekki að sök enda allir að skila varnarhlutverki sínu vel.

Þeir sem eru að berjast um sæti í sextán manna hópnum nýttu tækifærið vel. Kári Kristján Kristjánsson og Oddur Gretarsson spiluðu mjög vel og ljóst að það verður erfitt fyrir Guðmund að skilja báða eftir utan HM-hópsins.

Varnarleikurinn var þó það sem stóð upp úr í leikjunum tveimur um helgina og ljóst að ef strákarnir halda sama dampi í honum þegar til Svíþjóðar er komið er von á góðu frá þeim.

Ísland - Þýskaland 31 - 27 (16 - 13)

Mörk Íslands (skot): Ólafur Stefánsson 7/3 (9/4), Aron Pálmarsson 6 (12), Snorri Steinn Guðjónsson 4 (6), Alexander Petersson 4 (7), Kári Kristján Kristjánsson 3 (3), Guðjón Valur Sigurðsson 2 (3), Vignir Svavarsson 1 (1), Oddur Gretarsson 1 (1), Sverre Jakobsson 1 (1), Róbert Gunnarsson 1 (1), Arnór Atlason 1 (3), Ásgeir Örn Hallgrímsson (1), Sturla Ásgeirsson (1), Sigurbergur Sveinsson (1).

Varin skot: Hreiðar Guðmundsson 10/1 (23/3, 43%), Björgvin Páll Gústavsson 7 (21/1, 33%).

Hraðaupphlaup: 9 (Alexander 3, Guðjón Valur 2, Kári Kristján 1, Vignir 1, Arnór 1, Ólafur 1).

Fiskuð víti: 4 (Róbert 2, Kári Kristján 1, Aron 1).

Utan vallar: 10 mínútur.

Mörk Þýskalands (skot): Michael Kraus 9/3 (13/4), Uwe Gensheimer 4 (6), Adrian Pfahl 3 (10), Patrick Grötzki 2 (2), Holger Glandorf 2 (3), Michael Haass 2 (3), Pascal Hens 1 (1), Jacob Heinl 1 (1), Christian Sprenger 1 (1), Sebastian Preiss 1 (2), Sven-Sören Christophersen 1 (3), Dominik Klein (2).

Varin skot: Johannes Bitter 7 (22, 32%), Carsten Lichtlein 4 (19/3, 21%).

Hraðaupphlaup: 9 (Gensheimer 2, Grötzki 2, Hens 1, Glandorf 1, Christophersen 1, Sprenger 1, Haass 1).

Fiskuð víti: 4 (Klein 1, Heinl 1, Kraus 1, Haass 1).

Utan vallar: 6 mínútur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×