Viðskipti innlent

Skuldamál Alterra eru Jarðvarma óviðkomandi

Jarðvarmi, félag í eigu lífeyrissjóðanna, hefur sent frá sér athugasemd vegna frétta um málefni HS Orku. Þar segir að skuldamál Alterra, áður Magma Energy, séu Jarðvarma óviðkomandi.

Athugasemdin hljóðar svo: „Í fréttum af endurgreiðslu Alterra (áður Magma Energy) á láni félagsins, hefur aðkoma Jarðvarma, félags í eigu lífeyrissjóða sem nýlega keypti fjórðungshlut í HS Orku, verið til umræðu. Af því tilefni vill stjórn Jarðvarma taka eftirfarandi fram:

Við kaup Jarðvarma á hlutum í HS Orku í maí s.l. voru Alterra greiddir 8,1 milljarður íslenskra króna fyrir hluti í eigu þess. Þar með eignaðist Jarðvarmi 25% af heildarhlutafé HS Orku. Alltaf hefur legið fyrir að þeir fjármunir færu ekki inn í HS Orku. Endurgreiðsla láns Alterra, sem um er rætt, hefur því að þessu leyti engin áhrif á þessa fjárfestingu eða rekstur HS Orku.

Það er Jarðvarma óviðkomandi hvernig Alterra háttar endurgreiðslum á lánum sem félagið hefur tekið og er það væntanlega samkomulagsatriði milli lánveitanda og lántaka eins og almennt tíðkast.

Vegna umræðna um aflandskrónur er rétt að ítreka það sem áður hefur komið fram að áður en ákvörðun var tekin um kaup Jarðvarma á hlutum í HS Orku yfirfóru lífeyrissjóðirnir og ráðgjafar þeirra fjármögnun Alterra á kaupum á hlutum í HS Orku. Þar var gengið úr skugga um að Jarðvarmi nyti alfarið þeirra kjara sem Alterra naut á sínum tíma af viðskiptum með aflandskrónur. Fullyrðingar um að Alterra sé að hagnast á aflandskrónuviðskiptum í samningum við Jarðvarma eru því rangar.

Samkomulag liggur fyrir um rétt Jarðvarma á að fjárfesta í nýju hlutafé sem gefið yrði út af HS Orku, en verði af þeirri fjárfestingu renna þeir fjármunir inn í HS Orku og gera félaginu kleift að mæta fyrirsjáanlegri fjárfestingarþörf og að sækja fram með nýjum verkefnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×