Hlutabréfamarkaðir hrundu í dag og sérfræðingar beggja vegna Atlantsála óttast annað efnahagshrun. Doktor í hagfræði segir vanda evrusvæðisins óhjákvæmilega bitna á Íslendingum.
Hlutabréfavísitölur um allan heim hríðféllu í dag en vantrú á mörkuðum er spegilmynd af vanda í hagkerfum beggja vegna atlantsála.
Auk gífurlegs vanda margra ríkja á evrusvæðinu er vandinn mikill vestanhafs. Sérfræðingar velta því nú fyrir sér hvort annað efnahagshrun sé framundan.
Gylfi Magnússon, dósent og fyrrverandi ráðherra, lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale háskóla. Hann segist ekki vilja spá öðru allsherjarhruni, en segir fréttir dagsins slæmar.
Rætt er um tvo kosti fyrir evrusvæðið: Að auka samleitni meðal ríkjanna eða að yfirgefa evrusvæðið og taka upp sjálfstæða gjaldmiðla á ný.
Jose Manúel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESBS, varaði í dag við því að vandi ríkja á evrusvæðinu væri að smita út frá sér til annarra ríkja utan svæðisins.

