Viðskipti innlent

Vinna við Búðarhálsvirkjun er á áætlun

Byggingarvinna við Búðarhálsvirkjun gengur vel og er verkið á áætlun. Ístak vinnur að verkinu sem felst í meginatriðum í gangnagerð, byggingu stíflu og gerð stöðvarhúss.

Þetta kemur fram  á vefsíðu Landsvirkjunar. Þar segir að gerð hjáveituganga fyrir Köldukvísl er í fullum gangi en göngin verða tekin til notkunar nú í haust. Hjáveitugöngin munu veita Köldukvísl frá stíflubotninum meðan gerð stíflunnar stendur yfir. Verið er að þétta og undirbúa stíflugrunninn en áætlað er að vatni verði hleypt á lónið sumarið 2013.

Vinna við gerð aðrennslisganga sem leiða munu vatn frá lóninu og fjóra  kílómetra leið undir Búðarháls er einnig í fullum gangi. Unnið er að gerð efri hluta gangnanna en nú þegar hafa verið grafnir um 160 metrar inn í fjallið.Einnig er unnið við útgröft á stöðvarhúsgryfju sem er að mestum hluta lokið ásamt því að unnið er við ásprautun á veggi við stöðvarhús og frárennslisskurð.

Gert er ráð fyrir að um 200 manns muni starfa á svæðinu að jafnaði, utan aukningar sumarið 2013 en þá verði um 300 manns að störfum. Heildarársverk sem skapast vegna byggingar Búðarhálsvirkjunar yfir allan framkvæmdartímann eru á milli 6-700.

Framkvæmdir munu standa yfir næstu tvö árin en áætlað er að Búðarhálsvirkjun verði komin í rekstur fyrir árslok 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×