Handbolti

Ingimundur ekki með í kvöld - Oddur kallaður í hópinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli

Ingimundur Ingimundarson verður ekki með íslenska landsliðinu gegn Frökkum í kvöld og er væntanlega úr leik í keppninni sjálfri.

Ingimundur meiddist á hné í leiknum gegn Spáni í gær. Hann datt illa á hnéð þegar hann skoraði sitt annað mark í leiknum í upphafi síðari hálfleiks.

Einar Þorvarðarson staðfesti í samtali við Vísi að Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari myndi setja Odd Gretarsson í leikmannahóp Íslands fyrir leikinn gegn Frakklandi í kvöld. Hann hefst klukkan 19.45.

Ingimundur hefur verið fastamaður í íslensku vörninni í öllum leikjum liðsins í Svíþjóð til þessa. Hann hefur auk þess skorað sjö mörk í leikjunum sjö sem er það mesta sem hann hefur skorað á einu stórmóti.

Einar sagði að Snorri Steinn Guðjónsson hefði hvílt á æfingu liðsins í morgun en að hann verði á skýrslu í kvöld.

„Annars eru allir að glíma við smávægileg meiðsli eins og eðlilegt er á stórmóti," sagði Einar.

Oddur Gretarsson er 20 ára vinstri hornamaður sem leikur með Akureyri í N1-deildinni. Leikurinn í kvöld verður hans fyrsti á stórmóti en hann hefur hingað til leikið tíu landsleiki og skorað í þeim 22 mörk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×