Handbolti

Ísland laut í lægra haldi fyrir sterkum Þjóðverjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex og félagar í íslensku sókninni voru í strangri gæslu í kvöld.
Alex og félagar í íslensku sókninni voru í strangri gæslu í kvöld. Mynd/Valli

Strákarnir okkar töpuðu í dag sínum fyrsta leik á HM í Svíþjóð er liðið mætti sterku liði Þýskalands. Niðurstaðan var þriggja marka sigur þeirra þýsku, 27-24.

Úrslitin eru afar svekkjandi fyrir íslenska landsliðið, sérstaklega þar sem að þýska liðið var fyrirfram talið það veikasta sem við myndum mæta í milliriðlakeppninni.

En það verður þó að segjast að líklega voru Þjóðverjar að spila sinn langbesta leik í keppninni til þessa. Þeir voru afar skynsamir, bæði í vörn og sókn auk þess sem að Silvio Heinevetter átti frábæran leik í markinu. Hann var valinn maður leiksins.

Það skal einnig hafa það í huga að Heinevetter varði jafn mörg skot og Björgvin Páll Gústavsson í leiknum. Það stóð því ekki á markvörslunni hjá okkur og sú staðreynd að Ísland er að halda andstæðingnum enn og aftur undir 30 mörkum segir okkur að varnarleikurinn var heldur ekki það slæmur.

Ástæðuna fyrir tapinu í dag er fyrst og fremst að finna í sóknarleik Íslands - nú eða þá varnarleik Þjóðverja. Strákarnir áttu einfaldlega engin svör við sterkum varnarleik þegar mest á reyndi seint í síðari hálfleik.

Fyrri hálfleikur hefði getað orðið miklu verri. Þjóðverjar komust í tvígang fimm mörkum yfir en strákarnir gáfust aldrei upp og náðu alltaf að saxa á forskotið aftur.

Staðan í hálfleik var 15-13 og munurinn aðeins tvö mörk. Íslendingar náðu með mikilli þrautsegju að vinna sig enn betur inn í leikinn. Strákarnir, sérstaklega Aron, var að finna Róbert á línunni og Alexander átti nokkrar glæsilegar sleggjur utan af velli.

Staðan var orðin 18-18 og þá hélt maður að leikurinn væri að snúast Íslandi í hag. En hið gagnstæða gerðist. Þjóðverjar svöruðu mjög fljótt fyrir sig með tveimur mörkum áður en Alexander skoraði eitt allra fallegasta mark mótsins - glæsilegt undirhandarskot af gólfinu.

Það mark kom á 44. mínútu. Ísland skoraði næst á 56. mínútu og var Alex þar aftur að verki. En þá var munurinn aftur kominn í fimm mörk og í þetta skiptið höfðu strákarnir ekki tíma til að vinna sig aftur inn í hann.

Á þessum tíma var sóknarleikurinn okkar hræðilegur. Það gekk einfaldlega allt á afturfótunum. Björgvin Páll varði tvö fín skot en Heinevetter fór á kostum hinum megin á vellinum.

Guðmundur Guðmundsson hefði mátt taka leikhlé miklu fyrr í þessu mótlæti. Það gerði hann þegar fimm mínútur voru eftir og Ísland fjórum mörkum undir. Íslendingar áttu í raun aldrei séns á lokamínútunum.

Róbert átti glæsilegar 45 mínútur í kvöld og Alexander var sá eini þess fyrir utan sem náði að stíga upp úr vonleysinu. Aron sýndi lipra takta inn á milli en mikið meira var það ekki. Björgvin Páll, sem fyrr segir, var öflugur í markinu sem dugði ekki til í dag.

Ísland mætir næst Spáni á mánudaginn og ætli strákarnir okkar að komast í undanúrslit verða þeir einfaldlega að vinna þann leik.

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins: Ísland - Þýskaland.

Ísland - Þýskaland 24-27 (13-15)



Mörk Íslands (Skot): Alexander Petersson 7 (12), Róbert Gunnarsson 5 (5), Ólafur Stefánsson 4/2 (7/2), Arnór Atlason 4 (8), Guðjón Valur Sigurðsson 2 (3), Aron Pálmarsson 2 (7).

Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 15/1 (41/3, 37%).

Hraðaupphlaupsmörk: 4 (Guðjón Valur 2, Ólafur, Alexander)

Fiskuð víti: 2 (Róbert, Snorri Steinn)

Brottvísanir: 4 mínútur.

Mörk Þýskalands (Skot): Christian Sprenger 5 (8), Holger Glandorf 4 (5), Sebastian Preiss 4 (6), Michael Kraus 4/2 (9/3), Dominik Klein 3 (4), Adrian Pfahl 3 (4), Pascal Hens 2 (6), Jacob Heinl 1 (2), Michael Haass 1(4).

Varin skot: Silvio Heinevetter 15 (38/2, 39%)

Hraðaupphlaupsmörk: 7 (Sprenger 3, Pfahl 2, Klein, Heinl)

Fiskuð víti: 3 (Preiss 2, Hens)

Brottvísanir: 6 mínútur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×