Handbolti

Aron: Við spiluðum eins og aular í fyrri hálfleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk í tapleiknum á móti Spáni í milliriðli á HM í handbolta í dag. Íslenska liðið tapaði með átta marka mun eftir að hafa verið tíu mörkum undir í hálfleik. Aron var í viðtali við Hörð Magnússon, íþróttafréttamann á Stöð 2 Sport eftir leikinn.

„Þetta eru hrikaleg vonbrigði og ég er drullufúll. Við náðum ekki markmiðunum sem við settum okkur og nú þurfum við bara að reyna að ná Ólympíusætinu. Það er bara ekki nóg finnst mér miðað við þann mannskap sem við erum með," sagði Aron eftir leik.

„Við vorum með skýr markmið en svo komum við svona til leiks. Við spiluðum eins og aular í fyrri hálfleik og ég er mjög fúll með það," sagði Aron.

„Það sló okkur örugglega eitthvað að tapa á móti Þjóðverjum en við eigum að vera það reynslumiklir að láta slíkt tap ekki á okkur fá," sagði Aron.

„Við vorum búnir að kortleggja þá og mér fannst þeir ekki koma okkur á óvart. Þeir voru bara miklu sterkari en við í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn okkar var skelfilegur og þeir skora tíu mörk úr hraðaupphlaupum sem segir mikið um sóknarleikinn," sagði Aron.

„Markvarslan kom aldrei í gang í fyrri hálfleik en Bjöggi var reyndar frábær í seinni. Vörnin var heldur ekkert spes í fyrri hálfleik og þetta var nánast búið í hálfleik," sagði Aron.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×