Viðskipti innlent

Krónan stöðug frá gengislækkun í janúar

Eftir að hafa tekið nokkra lækkun fyrrihluta janúar hefur krónan haldist nokkuð stöðug síðan. Frá 1. til 21. janúar síðastliðinn fór evran úr því að kosta 153,2 krónur í að kosta 158,7 krónur, sem samsvarar 3,5% lækkun á gengi krónunnar gagnvart evrunni. Er þetta svipuð lækkun og varð í gengi krónunnar gangvart viðskiptavegnu meðaltali gjaldmiðla en sú lækkun var 3,1%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að gengi evrunnar stendur nú í 159,9 kr. og hefur krónan því lækkað um 0,8% til viðbótar gagnvart henni, en sú lækkun átti sér stað núna um miðjan febrúar.

Helstu hugsanlegu ástæður lækkunar krónunnar á fyrstu vikum ársins eru tímabundnar að mestu. Má þar nefna árstíðarsveiflu í gjaldeyristekjum af ferðamönnum og áhrif af kaupum Seðlabankans á gjaldeyri af bönkunum í lok síðasta árs. Önnur áhrif og varanlegri kunna að vera vaxtagreiðslur af innlendum ríkisskuldabréfum til erlendra aðila, sem og minni munur á innlendum og erlendum vöxtum sem komið hefur til vegna vaxtalækkana Seðlabankans undanfarið.

Veltan á millibankamarkaðinum með gjaldeyri hefur verið lítil undanfarið. Í janúar var hún 22 milljónir evra og tæplega 40 milljónir evra í febrúar. Veltan það sem af er ári hefur samt verið talsvert yfir því sem hún var á sama tíma fyrir ári en samanlögð velta á millibankamarkaðinum með gjaldeyri á þessum í fyrra var 11 milljónir evra.

Stór þáttur í þessum vexti eru kaup Seðlabankans á gjaldeyri sem hafa staðið yfir frá því í ágúst í fyrra. Á bankinn þannig um fimmtung af veltunni á gjaldeyrismarkaðinum á fyrstu 2 mánuðum þessa árs en hann átti engin viðskipti á millibankamarkaðinum með gjaldeyri á þessu tímabili í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×