Viðskipti innlent

Tæplega tíu ára málarekstur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jakob Möller er verjandi Tryggva Jónssonar.
Jakob Möller er verjandi Tryggva Jónssonar.
Málarekstur Baugsmálsins hefur tekið níu ár og tvo mánuði. Jakob Möller, verjandi Tryggva Jónssonar fyrrverandi aðstoðarforstjóra Baugs, og Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, vöktu máls á þessu þegar þeir fluttu mál sitt í morgun. Þá hélt málflutningur í skattahluta Baugsmálsins áfram.

Jakob Möller sagði í máli sínu að þessi langi málarekstur stafaði alls ekki af því að Tryggvi Jónsson hafi leitast við að tefja rekstur málsins. „Það er fyrst og fremst ein ástæða fyrir því að ákærður maður er talinn hafa tafið. Hún er sú að hann hafi stungið af,“ sagði Jakob. Þetta ætti alls ekki við í tilfelli Tryggva.

Gestur Jónsson tók í sama streng og færði rök fyrir því að stjórnvöldum bæri að tryggja sakborningum að úrlausn fengist eins skjótt og auðið væri fyrir dómstólum. Hann vísaði í grein Eiríks Tómassonar, hæstaréttardómara og fyrrverandi lagaprófessors, þar sem segir að meðalmálsmeðferðartími opinberra mála sé eitt ár. 

Gestur vakti jafnframt athygli á því að fjórir saksóknarar hefðu komið að málinu þann tíma sem meðferð þess hefur staðið yfir.

Héraðsdómur kveður upp dóm sinn í málinu á næstu fjórum vikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×