Fjármögnunarfyrirtækið Lýsing segir að þeir fjármögnunarleigusamningar sem fyrirtækið hefur gert sé í veigamiklum atriðum frábrugðinn fjármögnunarleigusamningnum sem Íslandsbanki gerði við Kraftvélaleiguna. Hæstiréttur dæmdi í gær samning Kraftvélaleigunnar og Íslandsbanka ógildan. Þótt upphæð þess samnings hafi ekki verið há er um milljarðahagsmuni að tefla því að Íslandsbanki og Landsbankinn þurfa nú að endurreikna um 7500 samninga vegna fordæmisgildis dómsins. Lýsing segist hins vegar ekki geta litið á niðurstöðu dómsins sem fordæmi vegna fjármögnunarleigusamninga sinna.
Í máli sem fyrirtækið Smákranar reka gegn Lýsingu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur reynir á lögmæti gengistryggingar fjármögnunarleigusamnings Lýsingar og verður aðalflutningur málsins þann 16. nóvember næstkomandi. Lýsing gerir ráð fyrir dómsuppkvaðningu í byrjun desember. Verði héraðsdómi áfrýjað til Hæstaréttar, ætti endanleg niðurstaða að liggja fyrir fyrri hluta næsta árs.
Í tilkynningu frá Lýsingu segir félagið að samningar þess um fjármögnunarleigu séu skýrir leigusamningar en ekki lánasamningar og falli þar af leiðandi ekki undir gildissvið vaxtalaga og þann skilning Hæstaréttar að lögin banni gengistryggingu lána. Samningarnir séu ólíkir bílasamningum og öðrum kaupleigusamningum sem meirihluti Hæstaréttar telji sambærilega samningi Íslandsbanka.

