Viðskipti innlent

Horfði á hrunið með nýfæddan soninn í fanginu

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, segir „allt vera breytt" eftir hrunið og mikið verk vera fyrir höndum að endurreisa „gömul gildi" til vegs og virðingar. Þetta kemur fram í grein eftir Ragnheiði Elínu í tilefni af því að rúm þrjú ár eru nú liðin frá hruni bankakerfisins.

Í greininni rekur hún hvernig hún upplifði hrunið og atburðina sem í kjölfarið fylgdu. Hún eignaðist barn sama dag og forsvarsmenn Glitnis gengu á fund í Seðlabanka Íslands vegna fjármögnunarvanda bankans. Orðrétt segir Ragnheiður Elín í greininni: „Fimmtudaginn 25. september 2008, daginn sem Glitnismenn gengu á fund Seðlabanka Íslands til að leita eftir aðstoð ríkisins við fjármögnunarvanda bankans, eignaðist ég son. Fundur þessi markaði á vissan hátt upphaf örlagaríkrar atburðarrásar sem margir hafa lýst sem hvirfilbyl, holskeflu…eða sem upphafinu að íslenska bankahruninu. Fyrir mér markaði þessi dagur upphaf nýs lífs og var sannkallaður hamingjudagur. Jafnvel á því hamingjuskýi sem ég sat á með litla barnið mitt komst ég ekki hjá því að skynja að eitthvað væri í aðsigi. Fréttirnar voru þannig, óvissa, kvíði og alvara í loftinu. Og þess vegna mætti ég á þingflokksfund um miðnætti sunnudaginn 5. október, daginn fyrir setningu neyðarlaganna, aðeins tíu dögum eftir fæðingu sonar míns. Og þess vegna kom ég líka í þingið 6. október og stóð í hliðarsal þegar mælt var fyrir neyðarlögunum. Ég gat einhvern veginn ekki haldið mig fjarri."

Ragnheiður segir að bankahrunið sé aðeins hluti af mun umfangsmeiri samfélagsbreytingu, sem atburðirnir í október 2008 mörkuðu. Hún segir alla þurfa að leggjast á eitt við að hefja góð og samfélagslega mikilvæg gildi til vegs og virðingar á nýjan leik. „En það er í okkar höndum að ákveða hvort við breytum til baka og hefjum gömul gildi aftur til vegs og virðingar, fögnum því góða sem við áttum hér og eigum að mörgu leyti enn og tökum á ný upp þá meginreglu að sýna hvert öðru virðingu og kurteisi. Ég er til."

Grein Ragnheiðar Elínar má sjá hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×