Viðskipti innlent

Norðurál bauð líka í hlutinn í HS Orku

Norðurál hafði hug á að kaupa hlut Geysis Green Energy í HS Orku árið 2009. Íslandsbanki sá um söluna og ákveðið var að ganga frekar að tilboði Magma Energy Sweden, dótturfyrirtækis kanadíska fyrirtækisins Magma Energy.

„Ég get staðfest það að Norðurál tók þátt í söluferli á bréfum í HS Orku sem Íslandsbanki hélt utan um. Íslandsbanki ákvað að selja hlutabréfin í HS til Magma. Við erum sannfærð um að okkar tilboð hafi verið mjög samkeppnishæft en samt sem áður var tilboði Magma tekið," segir Ágúst Hafberg hjá Norðuráli.

Kaup Magma á hlut Geysis Green voru mjög umdeild og fjármálaráðherra leitaði leiða til að ganga inn í kaupin fyrir hönd ríkisins.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra lá undir ámæli á Alþingi í gær, en hann var sakaður um að hafa haft óeðlilega aðkomu að málinu. Steingrímur segir það af og frá, hann hafi verið að reyna að tryggja það að meirihluti, eða að minnsta kosti helmingur HS Orku, yrði í eigu innlendra aðila. Reynt hafi verið að koma saman eigendahópi en þær tilraunir hafi runnið út í sandinn.

Ágúst segir að einmitt það hafi Norðurálsmenn reynt; að koma saman eigendahópi um fjárfestingu í HS Orku. „Norðurál tók þátt í þessu söluferli til að tryggja að HS hefði fjárhagslegt bolmagn til að til að ljúka við orkuöflunarverkefni á Reykjanesi og standa við samningsskuldbindingar sínar vegna Helguvíkurálversins. Meðal annars bauðst Norðurál til þess að taka þátt í fjárfestingu í HS Orku sem minnihlutaeigandi með öðrum íslenskum fjárfestum, t.d. lífeyrissjóðum. Staðan í dag er sú að HS Orka er að reyna að komast undan skuldbindingum sínum sem skilgreindar eru í orkusamningi milli fyrirtækjanna."

Deila Norðuráls og HS Orku um orkusölusamninga vegna álversins í Helguvík er fyrir gerðardómi. Búist er við niðurstöðum úr því máli í næstu viku.- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×