Handbolti

Frakkar tryggðu sér sæti í undanúrslitum með sigri á Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frakkar eru komnir í undanúrslit á enn einu stórmótinu.
Frakkar eru komnir í undanúrslit á enn einu stórmótinu. Mynd/AFP

Frakkar fylgdu Spánverjum inn í undanúrslitin á HM í handbolta með því að vinna fimm marka sigur á Norðmönnum, 31-26, í lokaleiknum í íslenska milliriðlinum í kvöld.

Frakkar og Spánverjar eru bæði með sjö stig og gætu leyft sér að hvíla menn í lokaumferðinni á morgun þar sem Frakkar mæta Íslendingum en Spánverjar spila við Ungverja.

Frakkar komust strax í 4-1 eftir fimm mínútur og voru með frumkvæðið eftir það. Norðmenn náðu þó við og við að minnka muninn niður í eitt mark í fyrri hálfleiknum en Frakkar gáfu alltaf í jafnharðan og náðu aftur þriggja marka forskoti.

Frakkar voru 17-14 yfir í hálfleik og voru síðan komnir með sjö marka forskot, 23-16, eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik.

Frakkar voru síðan komnir níu marka forskot, 26-17, þegar 17 mínútur voru eftir en Norðmenn náðu þá frábærum kafla þar sem þeir skoruðu sex mörk í röð og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk, 26-23, þegar sex mínútur voru eftir.

Claude Onesta tók þá leikhlé og sendi sitt sterkasta lið aftur inn á völlinn. Franska liðið náði að stoppa blæðinguna og tryggðu sér fimm marka sigur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×