Viðskipti innlent

Byggðastofnun tapaði 2,6 milljörðum í fyrra

Byggðastofnun skilaði tapi upp á rúma 2,6 milljarða kr. í fyrra.  Eigið fé stofnunarinnar neikvætt um rétt tæpan hálfan milljarð kr. Eiginfjárhlutfallið er komið niður í -2,4% en skal að lágmarki vera 8% af eiginfjárgrunni  samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Þetta kemur fram í tilkynningu um ársuppgjör Byggðastofnunnar.  Þar segir að eignir námu tæpum 17 milljörðum kr. og hafa lækkað um 6,7 milljarða kr.  frá árinu 2009. Þar af voru útlán 14 milljarðar kr.

Skuldir námu 17,5 milljarði kr. og hafa lækkað um 5 milljarða kr. frá árinu 2009.

„Eiginfjárhlutfall skv. lögum um fjármálafyrirtæki er -2,4% en skal að lágmarki vera 8% af eiginfjárgrunni. Vegna erfiðs efnahagsástands hefur stofnunin þurft að leggja aukna fjármuni inn á afskriftarreikning útlána vegna mögulegrar taphættu.  Á árinu 2010 var þessi fjárhæð 2.894 milljónir kr. í samanburði við 3.721 milljónir kr. árið 2009. Hlutfall afskriftarreiknings af heildarútlánum 25,6%. Skýrist tap stofnunarinnar á árinu af þessum varúðarfærslum,“ segir í tilkynningunni.

„Alþingi samþykkti í fjárlögum 2011, heimild til að efla eigið fé Byggðastofnunar um allt að 1.000 milljónum kr. að fenginni úttekt iðnaðarráðuneytisins á framtíðarfyrirkomulagi lánastarfsemi stofnunarinnar.

Iðnaðarráðherra hefur skipað nefnd til að gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag á lánastarfsemi stofnunarinnar. Nefndinni er ætlað að skila tillögum sínum eigi síðar en 1. maí n.k.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×