Viðskipti innlent

Mesti afgangur af þjónustuviðskiptum frá 1994

Alger viðsnúningur hefur orðið í þjónustujöfnuði við útlönd frá hruni, og hafa þjónustuviðskipti við útlönd að jafnaði skilað verulegum afgangi undanfarin misseri eftir verulegan halla þensluárin á undan. Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var um að ræða mesta afgang af þjónustuviðskiptum í krónum talið á þessum árstíma frá árinu 1994.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar var 1,7 milljarða kr. afgangur af þjónustujöfnuði við útlönd á síðasta fjórðungi ársins 2010. Útflutningur á þjónustu nam 68 milljörðum kr. en innflutningur þjónustu nam 66,3 milljörðum kr. Afgangurinn var fyrst og fremst vegna 8 milljarða kr. afgangs á viðskiptum vegna samgangna, en tæplega 7 milljarða kr. halli var á þjónustu tengdri ferðalögum.

Mikil árstíðarsveifla er í þjónustujöfnuði við útlönd og þrátt fyrir að afgangurinn hafi ekki reynst ýkja mikill á síðustu mánuðum nýliðins árs er hér um að ræða mesta afgang af þjónustuviðskiptum í krónum talið á þessum árstíma frá árinu 1994.

Afgangur af þjónustujöfnuði á árinu 2010 reyndist tæpir 44 milljarðar kr. miðað við þessar tölur. Það þýðir að samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd var tæplega 163 milljarðar kr. í fyrra, sem samsvarar ríflega 10% af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins. Er það eilítið minna en sá 11% afgangur sem Seðlabankinn gerði ráð fyrir í nýjustu þjóðhagsspá sinni í febrúarbyrjun.

Útlit er fyrir að áfram verði myndarlegur afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd, enda er innlend eftirspurn lítið farin að rétta úr kútnum, raungengi afar lágt, horfur þokkalegar fyrir íslenskan ferðamannaiðnað þegar líður á árið og verð helstu útflutningsafurða hefur hækkað talsvert undanfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×