Viðskipti innlent

Yfir 10 milljarða velta á íbúðamarkaði frá áramótum

Veltan á íbúðamarkaði hefur heldur verið að aukast undanfarið. Nemur hún það sem af er ári 10,4 milljörðum kr. á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 7,3 milljarða kr. á sama tímabili í fyrra.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að fjöldi samninga hafi einnig aukist en þeir eru orðnir 342 í ár samanborið við 223 á sama tímabili í fyrra.

Ef litið er til síðustu tólf vikna hafa að meðaltali verið gerðir 62 samningar á viku hverri samanborið við 42 samninga á sama tímabili fyrir ári á þessu svæði.

Aukin velta á sér eflaust nokkrar skýringar. Sparifé hafur verið að leita að arðsemi á þeim lokaða fjármagnsmarkaði sem hér er þar sem fjárfestingarkostirnir eru fáir. Sú eftirspurn er að stórum hluta drifin af væntingum um þróun íbúða- og leiguverðs en leiguverð hefur haldist nokkuð hátt undanfarið og íbúðaverð virðist vera a.m.k. nálægt botninum," segir í Morgunkorninu.

„Endurreikningi á lánum heimila hefur miðað áfram og hefur það skýrt myndina í fjármálum heimilanna. Samhliða hefur losnað um bæði framboðs- og eftirspurnarstíflu á íbúðamarkaðinum sem kann að skýra aukna veltu nú að hluta. Þessu ferli endurreiknings er ekki lokið og mun hann halda áfram að marka íbúðamarkaðinn á næstunni.

Að lokum má nefna að kaupmáttur hefur verið vaxandi og væntingar um að botni kreppunnar sé náð kunna að hafa hér áhrif."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×