Viðskipti innlent

Gefur vatn til Haítí fyrir milljónir

Jón ólafsson
Jón ólafsson

„Ég fer innan tíu daga,," segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður átöppunarfyrirtækisins Icelandic Water Holdings, um fyrirhugaða ferð sína til Haítí.

Fyrirtæki hans hefur sent 160 tonn af flöskuvatni undir merkjum Icelandic Glacial þar sem það er gefið nauðstöddum á Haítí. Þar hefur mikil neyð ríkt síðan jarðskjálfti upp á 7,0 á Richter-skalanum reið þar yfir og lagði höfuðborgina Port-au-Prince í rúst. Vatnið kom þangað um síðustu helgi.

Tala látinna er á reiki og hleypur hún á hundrað til þrjú hundruð þúsund manns. Allt að tvær milljónir eru taldar hafa misst heimili sín og milljón til viðbótar orðið fyrir áhrifum af völdum hamfaranna. Þá skemmdust grunnstoðir samfélagsins, hreint drykkjarvatn er af skornum skammti og sjúkdómar tíðir af þeim völdum.

Fyrirtæki Jóns, sem bandaríski drykkjavörurisinn Anheuser-Busch á fimmtungshlut í, hefur frá því fljótlega eftir að skjálftinn reið yfir sent nú fjórum sinnum á bilinu 400-500 tonn af drykkjarvatni til hamfarasvæðanna. Áætlað verðmæti gjafarinnar, vatnsins, sem tappað er á flöskur í landi Hlíðarenda í Ölfusi, nemur um einni milljón Bandaríkjadala, um 120 milljónum íslenskra króna. - jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×