Viðskipti innlent

Ísafjarðarbær rekinn með 150 milljóna halla í fyrra

Ísafjarðarbær var rekinn með 150 milljóna kr. halla á síðasta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu um ársreikning bæjarins til Kauphallarinnar.

Heildarrekstrartekjur bæjarsjóðs og stofnana hans á árinu 2010 voru rúmlega 2.7 milljarðar kr. og rekstrargjöld fyrir fjármagnsliði  2.55 milljarðar kr.

Afkoma af reglulegri starfsemi var jákvæð um 182 milljónir kr., afskriftir voru 233 milljónir kr., þar af 53 milljóna kr. aukaafskrift vegna lokunar Funa. Afkoma fjármagnsliða mun betri en í fyrra, gjöldin voru 98 milljónir kr. umfram tekjur og tapið því 150 milljónir kr. eftir fjármagnsliði.

Í tilkynningu segir að verðbólgan hefur farið minnkandi og krónan styrktist, þannig að niðurstaða fjármagnsliða var tiltölulega góð miðað við skuldsetningu. Þá var hlutafé afskrifað um 20 milljónir kr. og var það fall sparisjóðanna sem olli því að mestu.

Heildarveltufjármunir í árslok 2010 voru um 416 milljónir kr. að frádregnum kröfum á eigin fyrirtæki. Heildarfastafjármunir voru um 5.4  milljarðar kr. í árslok 2010. Á árinu var gert verðmat á lóðum og lendum og það sett inn í efnahaginn og bætti það fastafjármuni og eigið fé sveitarfélagsins verulega, eða um 788 milljónir kr. Rekstur sorpbrennslunnar var lagður niður og í kjölfarið afskrifaður vélbúnaður og hitavatnsleiðsla.

Skuldir alls, skammtíma- og langtímaskuldir, voru um 4.2 milljarðar kr. að frádregnum kröfum á eignarsjóð og á eigin fyrirtæki. Áfallnar lífeyrisskuldbindingar voru 946 milljónir kr. í árslok 2010 og eigið fé 754 milljónir kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×