Viðskipti innlent

Yfirfara kröfur ESA um ólöglega aðstoð

 ESA hefur úrskurðað að kaup Íbúðalánasjóðs á fasteignalánum sparisjóða hafi falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð í einhverjum tilvikum. Nú þarf að meta hver kaup fyrir sig og svara stofnuninni.
ESA hefur úrskurðað að kaup Íbúðalánasjóðs á fasteignalánum sparisjóða hafi falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð í einhverjum tilvikum. Nú þarf að meta hver kaup fyrir sig og svara stofnuninni. Mynd/Vilhelm
Fulltrúar í ráðuneytum og Íbúðalánasjóði fara nú yfir hvað úrskurður ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, um ólögmæta ríkisaðstoð þýði. Stofnunin úrskurðaði að kaup Íbúðalánasjóðs á fasteignaveðum fjögurra sparisjóða hefðu falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Alls keypti sjóðurinn 7.600 lán fyrir 29 milljarða.

ESA úrskurðaði að endurheimta þyrfti óleyfilega aðstoð eigi síðar en í lok október 2011. Stjórnvöld hafa frest til loka ágúst að svara erindinu bréflega. Ljóst er að endurheimtur munu ekki nema 29 milljörðum, en endurmeta þarf hvert lánasafn fyrir sig og sjá hvort greitt hafi verið markaðsverð fyrir. Endurkrafan, ef af verður, mun því snúa að mismun á greiddu verði og markaðsverði, sé hann fyrir hendi.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að embættismenn fari nú yfir úrskurðinn og hvaða þýðingu hann hafi. Ljóst sé að sé endurkrafa fyrir hendi muni það á endanum koma ríkissjóði, og þar með almenningi, til góða. Ríkið eigi þá kröfu á bú sparisjóðanna. Sparisjóðirnir sem um ræðir eru Spron, Sparisjóður Keflavíkur, Sparisjóður Bolungarvíkur og Byr.

„Það eru efnisleg rök fyrir því að þetta hafi verið heimilt að einhverju leyti. Það er of snemmt að segja hvað verður úr þessu. Það verður að fara yfir þetta, skjal fyrir skjal," segir Guðbjartur. Aðstoðin sem um ræðir byggir á neyðarlögunum.

guðbjartur Hannesson
Gunnhildur Gunnarsdóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Íbúðalánasjóðs, segir að málið byggi að verulegu leyti á því að ákvörðunin var ekki kynnt ESA fyrirfram. Þegar af þeirri ástæðu sé hún talin ólögmæt. Í álitinu kemur fram að þar sem enginn formlegur markaður var með bréfin sé erfitt að segja til um markaðsverð.

Þá er gagnrýnt að heimildin sé óbundin ákveðinni fjárhæð og ekki sett á hana tímamörk. Ljóst er að Alþingi mun þurfa að breyta lögum hvað aðstoðina varðar þegar það kemur saman í september.

„Það sem stendur upp á stjórnvöld er að sýna fram á að þetta hafi verið eðlilegur gjörningur en ekki ríkisaðstoð," segir Gunnhildur.

„Þetta var klárlega gert til þess að gera sparisjóðum og fjármálafyrirtækjum kleift að losa sig við eignir sem voru ekki seljanlegar og fá í staðinn íbúðabréf, sem eru ígildi lausafjár."

kolbeinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×