Viðskipti innlent

Mögulegt að semja við einkaaðila um nýja ferju

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Herjólfur hentar ekki til siglinga á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja.
Herjólfur hentar ekki til siglinga á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja.
Til greina kæmi að einkaaðili myndi kaupa nýja ferju til að sigla á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja og gera samning við ríkið um siglingarnar. Þetta segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri. Þá yrði hugsanlega hægt að fá nýja ferju fyrr en ef ríkið þyrfti að fjármagna hana.

Engum dylst að Herjólfur, sem nú er notaður í siglingarnar, hentar ekki til siglinga í Landeyjahöfn og hefur fjölmörgum ferðum þangað verið aflýst. Herjólfur er í eigu ríkisins, en ríkið hefur gert samning um rekstur hans við Eimskip. Eimskip sendi svo í gær frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að fyrirtækið er búið að láta frumhanna nýja ferju sem myndi kosta tæpa 4 milljarða og yrði afhent eftir 18-24 mánuði. Í tilkynningunni segir að Eimskip sé tilbúið að skoða nánar með Vegagerðinni að koma að fjármögnun og byggingu ferjunnar. 

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri er ekki alveg eins bjartsýnn og Eimskip. Hann segist telja að það tæki að lágmarki þrjú ár að fá nýja ferju í notkun. „Það tekur tvö ár að smíða skipið og það tekur að minnsta kosti ár að taka þær ákvarðanir sem þarf áður en lagt er af stað í að hanna skip,“ segir Hreinn. 

Hann segir að það komi til greina að gera samning við eitthvað einkafélag eins og hugmyndir Eimskips ganga út á. „Það þarf þá að gera nokkuð langan samning þannig að eitthvað félag fari að fjárfesta í því,“ segir Hreinn. Gert er ráð fyrir að ný ferja kosti um fjóra milljarða en Hreinn telur að hægt væri að fá milljarð upp í þann kostnað með því að selja Herjólf.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×