Viðskipti innlent

Nýr sæstrengur lagður milli Íslands og Írlands

Ísland og Írland ætla í sameiningu að standa á bakvið lagningu á nýjum sæstreng milli landanna. Sæstrengur þessi mun kosta um 36 milljarða króna og á hann að komast í gagnið árið 2013.

Í frétt á Reuters um málið segir að Enda Kenny forsætisráðherra Írlands hafi greint frá þessum áformum í Dublínarkastala í gærdag. Talsmaður Kenny segir að með hinum nýja sæstreng gefist Írum kostur á mun betri nettengingum sem sé mjög mikilvægt til að laða að hátæknifjárfestingar til landsins í framtíðinni.

Á Reuters segir að með þessum sæstreng muni fylgja aukning á netþjónabúum í báðum löndunum og Ísland og Írland verði leiðandi á því sviði í vestasta hluta Evrópu.

Microsoft hefur þegar komið sér upp netþjónabúi í Dublin og Google er að byggja eitt slíkt í borginni.

Í fréttinni kemur fram að bandaríska fyrirtækið Emerald Networks muni leggja sæstrenginn og mun hann liggja frá Bandaríkjunum um Ísland og til Írlands. Þetta yrði fyrsti nýi sæstrengurinn sem lagður er yfir Norður Atlantshafið síðan árið 2003.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×