Viðskipti innlent

Rússar vilja líka leggja sæstreng

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson ræddi við rússnesk stjórnvöld um sæstrenginn.
Össur Skarphéðinsson ræddi við rússnesk stjórnvöld um sæstrenginn. mynd/ stefán.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra fékk í dag skriflegt svar frá rússneskum stjórnvöldum um að Rússar vilja láta kanna hvort unnt sé að leggja sæstreng frá Murmansk til Íslands. Fyrr í morgun var greint frá því að til stendur að leggja sæstreng frá Bandaríkjunum til Írlands, í gegnum Ísland, á næsta ári. Sú fjárfesting nemur 36 milljörðum króna.

Össur er nýkominn frá Moskvu þar sem hann ræddi þessi mál við utanríkisráðherra Rússa. Hann segir að Rússarnir hafi upphaflega ætlað sér að leggja streng um Evrópu en þeir hafi síðan sannfærst um að með því að fara um Ísland gætu þeir sparað sér 30 milljónir dollara. Það nemur 3,6 milljörðum króna. Strengurinn frá Rússlandi mun liggja alla leið frá Asíu og gera gagnaflutning þaðan auðveldari.

Össur segir að allir þessir sæstrengir miði að því að gera Ísland að miðstöð fjarskipta og ýta undir græna hagkerfið á Íslandi. „Það mun ýta undir það að hér verði hægt að hrinda í framkvæmd gagnaverum. Það er eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku og svo mun kuldinn hér lækka mjög orkuþörfina,“ segir Össur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×