Viðskipti innlent

Sæstrengurinn verður sá hraðvirkasti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hér sést hvernig sæstrengurinn verður lagður frá Bandaríkjunum til Írlands með tengingu við Ísland.
Hér sést hvernig sæstrengurinn verður lagður frá Bandaríkjunum til Írlands með tengingu við Ísland. mynd/ vefur emeralds.
Sæstrengurinn sem Emerald Networks ætlar að leggja frá Írlandi til Bandaríkjanna, með tengingu við Ísland mun hjálpa Íslendingum við að byggja upp skapandi störf og fleiri stoðir í atvinnulífinu sem eru umhverfisvænar. Þetta segir Þorvaldur Sigurðsson, starfsmaður fyrirtækisins á Íslandi. Reuters fréttastofan greindi frá því fyrstur miðla í morgun að til stæði að leggja strenginn á næsta ári. Fjárfestingin nemur 36 milljörðum króna.

„Þetta verkefni er búið að vera í undirbúningi í nokkur ár, segir Þorvaldur í samtali við fréttastofu. Hann segir að sæstrengurinn verði sá hraðvirkasti sem lagður hafi verið í Norður-Atlantshafi. Þorvaldur segir að fjórtán sæstrengir liggi milli Evrópu og Bandaríkjanna en þeir séu allir með miklu minni flutningsgetu en þessi,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur segir að með sæstrengnum aukist líkurnar á því að hægt verði að byggja upp gagnaversiðnað á Íslandi. Til þess að það sé hægt þurfi nokkrum skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi þarf raforka að vera á hagkvæmum kjörum og við telum að það sé möguleiki á því. Númer tvö er að nýta kalda loftið okkar til kælingar á tölvubúnaðinum. Það er því mjög hagkvæm leið að kæla tölvubúnað hér í stað þess að dæla þungu vatni um öll tölvukerfi til að kæla það eins og er gert víða erlendis. Síðan þurfum við landsvæði og við teljum okkur hafa nóg landsvæði á Íslandi og svo þurfum við öflugar tengingar.

„Fimmti þátturinn er ytri þættir eins og til dæmis skattaumhverfi," segir Þorvaldur. Alþingi sé búið að samþykkja löggjöf þar sem erlendir viðskiptavinir gagnavera þurfi ekki að greiða virðisaukaskatt á Íslandi. Það geri Ísland samkeppnisfært miðað við önnur gagnaverssvæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. „Og það munar auðvitað heilmikið um það," segir Þorvaldur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×