Viðskipti innlent

Ríkisskattstjóri skilað tillögum vegna uppgjörs á virðisaukaskatti

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Ríkisskattstjóri hefur skilað tillögum til fjármálaráðuneytisins vegna uppgjörs á virðisaukaskatti vegna ólöglegra fjármögnunarleigusamninga. Skattgreiðslurnar, sem nema milljörðum króna, koma út á núlli fyrir ríkissjóð og því ekki talin ástæða til bakfærslu.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í lok október að fjármögnunarleigusamningar Íslandsbanka væru í raun lánasamningar. Í kjölfarið kom upp álitamál um hvernig væri rétt að standa að uppgjöri virðisaukaskatts vegna þessara samninga, þar sem fjármögnunarleiga er virðisaukaskattskyld en lánasamningur er það ekki. Óttast var að snúa þyrfti öllu skattgreiðslukerfinu við en þúsundir sambærilegra samninga hafa verið gerðir og hlaupa virðisaukaskattgreiðslurnar á milljörðum króna.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri sagði í samtali við fréttastofu í dag að búið sé að fara vandlega yfir samningana og senda tillögur til fjármálaráðuneytisins sem fela í sér að hans mati farsæla lausn á þessum annars flóknu útreikningum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu felst sú lausn meðal annars í því að virðisaukaskattsgreiðslurnar verði ekki gerðar upp þar sem bakfærsla á þeim kæmi á endanum út á núlli fyrir ríkissjóð.

Tillögurnar eru nú til skoðunar hjá fjármálaráðuneytinu en þær krefjast líklega lagabreytingar. Þá er talið að hægt verði að nota svipaða lausn á fjármögnunarsamninga Lýsingar sem dæmdir voru ólöglegir í Héraðsdómi í gær en það kemur hins vegar ekki endanlega í ljós fyrr en Hæstiréttur hefur úrskurðað um lögmæti þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×