Viðskipti innlent

Verðbólguþróunin áhyggjuefni

Kjarasamningar sem undirritaðir voru eftir mikið þóf í maí síðastliðnum gera ráð fyrir 2,5 prósenta verðbólgu, en nú stendur hún í fimm prósentum.
Kjarasamningar sem undirritaðir voru eftir mikið þóf í maí síðastliðnum gera ráð fyrir 2,5 prósenta verðbólgu, en nú stendur hún í fimm prósentum. Mynd/Valli
Vaxandi verðbólga er áhyggjuefni og rétt að fylgjast vel með þróuninni, en of snemmt er að segja til um áhrif verðbólgunnar á kjarasamninga, segir Matthías Kjeld, hagfræðingur hjá ASÍ.

Í forsendum kjarasamninga ASÍ og SA frá því í maí er gert ráð fyrir því að verðbólgan haldist í kringum 2,5 prósent. Samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands stendur verðbólgan nú í fimm prósentum, og hefur aukist um 0,8 prósentustig á einum mánuði. Þriggja mánaða verðbólgan er meiri og jafngildir því að ársverðbólga sé 6,3 prósent.

„Það hafa verið utanaðkomandi þættir sem hafa kynnt undir verðbólgunni, matvara, bensín og húsnæði, auk þess sem krónan hefur sigið,“ segir Matt-hías.

Hann segir of snemmt að segja til um áhrif vaxandi verðbólgu á kjarasamningana. Rétt sé að bíða og sjá næstu tvo mánuði í minnsta lagi til að átta sig á þróuninni yfir lengra tímabil.

- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×