Körfubolti

Hvað var Magnús að gera með snakkpoka á bekknum í gær?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Magnús Þór Gunnarsson.
Magnús Þór Gunnarsson. mynd/Daníel
Ótrúleg uppákoma átti sér stað í leik KR og Keflavíkur í gær sem gerði viðstadda kjaftstopp. Þá sást til Magnúsar Gunnarssonar, leikmanns Keflavíkur, fá sér snakk á bekknum í miðjum leik.

Þar sem þetta er líklega einstök uppákoma í íslensku íþróttalífi brá Vísir á það ráð að hringja í Magnús og leita skýringa.

"Málið er að morguninn fyrir leikinn fór ég í maga- og ristilspeglun. Ég gerði svo þau mistök yfir daginn að drekka ekki nóg og borða nógu mikið salt til þess að halda vatninu í líkamanum. Fyrir vikið fór ég að fá krampa í leiknum og þá voru góð ráð dýr," sagði Magnús sem sendi einn af nýliðunum í Keflavíkurliðinu í sjoppuna í miðjum leik.

Sá keypti poka af Lay´s flögum. Ekki með sour cream & onion bragði heldur venjulegu.

"Ég skellti því í mig smá flögum og íþróttadrykk með. Þetta var nú ekki heill poki sem ég borðaði. Ætli þetta hafi ekki verið svona 15 flögur. Ég varð að gera eitthvað og þetta var lausnin í KR-heimilinu í gær," sagði Magnús.

Honum leið eðlilega ekkert vel að þurfa að grípa til þessa ráðs. Hann snéri því baki í áhorfendur er hann skellti flögunum í sig.

"Ég bjóst alveg við því að einhver myndi smella mynd af mér þannig að ég reyndi að vera snöggur að þessu."

Þeir sem halda að Magnús hafi verið að þessu af einstakri nammifíkn þurfa að endurskoða sína afstöðu.

"Þetta hefur ekkert að gera með það að sé svona hrikalegur nammigrís. Mér finnst nammi alveg gott en er ekkert sérstaklega hrifinn af snakkinu."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×