Handbolti

Björgvin: Ekki nóg að vera góður í æfingaleikjunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska landsliðsins, segist hafa góða tilfinningu fyrir HM í Svíþjóð.

Ísland hefur leik í dag þegar að liðið mætir Ungverjum í B-riðli. Björgvin sagði í samtali við Hörð Magnússon sem staddur er í Linköping að æfingarnar hafi gengið vel.

„Það hefur gengið vel að ná þreytunni úr mannskapnum og komast í HM-gírinn," sagði hann. „Ég er með góða tilfinningu fyrir mótinu og við ætlum að standa okkur vel. Það þýðir ekki að vera bara góðir í æfingaleikjunum en vörnin lítur vel út hjá okkur og ég er spenntur fyrir því að byrja að sprikla."

Hann segir að markverðirnir hafi skoðað andstæðinginn vel. „Það er hluti af okkar starfi að skoða skytturnar sem við erum að fara að mæta og skotform þeirra. Maður liggur í því á kvöldin en samt verður að passa að gera ekki of mikið af því."

„Vissulega gáfu leikirnir gegn Þýskalandi góð fyrirheit en þetta er langt mót og það þarf mikið til að vel gangi hjá okkur."

Björgvin fagnar alltaf mörkum íslenska liðsins en er svo alltaf svekktur þegar andstæðingurinn skorar.

„Ég er mikil tilfinningavera og finnst gaman að spila með landsliðinu. Þá kemur þjóðarstoltið upp og fyrir vikið er meiri stemning í manni. Ég set líka miklar kröfur á mig og strákana og þá bera tilfinningarnar oft mann ofurliði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×