Viðskipti innlent

Heildaraflinn dróst saman um 8% á liðnu ári

Heildarafli íslenskra skipa í nýliðnum desembermánuði, metinn á föstu verði, var 8,2% minni en í desember 2009. Árið 2010 dróst aflinn saman um 8,0% miðað við árið 2009, sé hann metinn á föstu verði.

Þetta kemur fram á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að aflinn nam alls 53.369 tonnum í desember 2010 samanborið við 57.958 tonn í sama mánuði árið áður.

Botnfiskafli dróst saman um tæp 2.000 tonn frá desember 2009 og var um 31.300 tonn. Hlutur þorskafla þar af nam tæpum 13.700 tonnum og dróst saman um tæp 1.100 tonn frá fyrra ári. Ýsuaflinn var rúm 4.100 tonn, sem er nær sami afli og í desember 2009. Um 4.000 tonn veiddust af ufsa, sem er tæplega 1.600 tonnum minni afli en í desember 2009. Karfaaflinn jókst um rúm 800 tonn og nam um 4.800 tonnum.

Afli uppsjávartegunda var tæplega 20.300 tonn, sem er um 2.500 tonnum minni afli en í desember 2009. Síldaraflinn nam rúmum 13.200 tonnum og dróst saman um 2.800 tonn frá fyrra ári. Nær engin veiði var á gulldeplu, sem 6.400 tonn veiddust af í desember 2009. Hins vegar var loðnuafli upp á tæp 5.400 tonn í desember 2010 en enginn árið áður.

Flatfiskaflinn var rúmlega 1.300 tonn í desember 2010 samanborið við rúm 1.500 tonn árið áður. Skel- og krabbadýraaflinn var 295 tonn og jókst um 63 tonn frá fyrra ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×