Handbolti

Þrír leikir í beinni á Stöð 2 Sport í dag

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Valli

Stöð 2 Sport mun vera með þrjá leiki á HM í handbolta í beinni útsendingu í dag auk ítarlegrar umfjöllunar um viðureign Íslands og Frakklands.

Lokaumferð milliriðlakeppninnar fer fram í dag en nú þegar er ljóst hvaða lið hafa tryggt sér sæti í undanúrslitum keppninnar.

Spánn og Frakkland fara áfram úr milliriðli 1 og Danmörk og Svíþjóð úr milliriðli 2. Eftir leiki dagsins kemur í ljós hvernig liðin raðast saman í undanúrslitum.

Það er hins vegar hörð barátta um sæti í undankeppni Ólympíuleikanna en liðin í 2.-7. sæti á HM komast í hana.

Það er því eftirsóknarvert að tryggja sér þriðja sæti milliriðlakeppninnar og spila þannig um 5.-6. sætið.

Fjórða sætið veitir rétt til að spila um 7.-8. sætið en sá leikur er úrslitaleikur um síðasta sætið í undankeppninni.

Klukkan 15.05 hefst útsending frá leik Þýskalands og Noregs en Þjóðverjar eiga enn möguleika á þriðja sæti milliriðilsins. Þeir verða þó að vinna Noreg og stóla á hagstæð úrslit í öðrum leikjum.

Klukkan 17.05 hefst svo útsending frá viðureign Króatíu og Pólland sem er hreinn úrslitaleikur um þriðja sætið í milliriðli 2. Pólverjum dugir jafntefli en liðið er með fjögur stig en Króatía þrjú.

Klukkan 18.45 hefst upphitun fyrir leik Íslands og Frakklands sem hefst klukkutíma síðar. Ísland mun með sigri tryggja sér þriðja sæti riðilsins en annars þurfa strákarnir að stóla á hagstæð úrslit úr öðrum leikjum.

Í þættinum verður einnig fylgst með gangi mála í leik Ungverjalands og Spánar auk þess sem að dregið verður í bikarkeppni HSÍ.

Dagskráin í dag:

Kl. 15.05 Þýskaland - Noregur

Kl. 17.05 Króatía - Pólland

Kl. 18.45 Upphitun fyrir Ísland - Frakkland

Kl. 19.45 Ísland - Frakkland

Úrslit, staða og næstu leikir .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×