Viðskipti innlent

Kynna umboðsmann skuldabréfaeigenda

Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) boða til kynningarfundar í dag, mánudaginn 2. maí um umboðsmann skuldabréfaeigenda með áherslu á fyrirkomulagið í Noregi (Norsk Tillitsmann). Fundurinn fer fram á Hilton Reykjavík Nordica, Suðurlandsbraut 2, fundarsal G kl. 15 - 16.

Fjallað er um málið á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins. Þar segir að markaður fyrir fyrirtækjaskuldabréf hér á landi tók dýfu eftir efnahagshrunið í október 2008.  Skuldabréfamarkaðurinn er þrátt fyrir það líflegur, þótt enn sé úrval bréfa tiltölulega einhæft.

Ekki er ástæða til að ætla annað en að það muni breytast smám saman þegar efnahagslífið réttir úr kútnum, fjármálafyrirtæki sækja í auknum mæli fjármagn á skuldabréfamarkað og rekstur atvinnufyrirtækja braggast.

Öflugur skuldabréfamarkaður getur leikið stórt hlutverk við endurreisn íslensks atvinnulífs og því er mikilvægt að efla traust milli útgefenda og fjárfesta til að auka tiltrú á markaði.

Ætla verður að í framtíðinni muni fagfjárfestar gera kröfur um að skilmálar skuldabréfa verði strangari en almennt tíðkaðist fyrir efnahagshrunið. Á sama tíma þarf að tryggja að slíkir skilmálar innihaldi nægilegan sveigjanleika fyrir útgefendur þannig að þeir geti lagað sig að aðstæðum í efnahagslífinu hverju sinni, að því er segir á vefsíðunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×