Viðskipti innlent

Gylfi: Menn búnir að gefast upp á Grikklandi

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að björgunarpakkinn sem nú sé ræddur bendi til þess að menn séu búnir að gefast upp á að reyna halda Grikklandi á floti án greiðslufalls.

Skuldakreppan á evrusvæðinu hefur valdið miklum óróa á að alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Vísitölur í helstu kauphöllum heims lækkuðu mikið í síðustu viku sem varð til þess að Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, lýsti því yfir að hagkerfi heimsins  væri komið á hættulegt stig.

Breska ríkisútvarpið, BBC, greindi frá í morgun að innan alþjóðgjaldeyrissjóðsins væru menn að leggja á ráðinn um viðamikinn björgunarpakka fyrir ríki evrusvæðisins. Meðal þess sem rætt er um að fjórfalda björgunarsjóð evrusvæðisins, úr tæpum fimm hundruð milljörðum evra í tvö þúsund milljarða evra.

Þá er einnig rætt um afskrifa helming allra skulda gríska ríkisins.

Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild háskóla Íslands og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, segir að í þessum pakka felist ákveðin uppgjöf gagnvart vanda Grikkja.

„Menn hafa greinilega gefist upp að reyna að halda grikklandi á floti án greiðslufalls. Ég held reyndar að það hafi verið óhjákvæmilegt. Kannski er engin frétt í því. Þetta var eitthvað sem allir voru búnir að sjá að myndi gerast fyrr eða síðar. Stóra fréttin í þessu er hins vegar ef mönnum tekst á trúverðugan hátt að draga víglínuna við Grikkland, þannig að Grikkland fari í gegnum þetta þannig að önnur lönd sem menn hafa haft áhyggjur af, Ítalía, Spánn, Portugál, Írland, Belgía og svo framvegis að þau lönd fái þann stuðning sem þau þurfta til að leysa sinn vanda sem einnig er mikill þótt hann sé minni en hjá Grikkjum.“

Evrópskar bankastofnanir munu tapa gríðarlegum fjárhæðum fari svo að skuldir grikkja verði afskrifaðar. Kostnaðurinn gæti að hluta lent á skattgreiðendum í Þýskalandi og Frakklandi. Nýlegar skoðanakannir í Þýskalandi benda hins vegar til þess að kjósendur þar í landi vilja ekki taka á sig meiri byrðar til að leysa skuldavanda Grikkja.



„Það er spurning um pólitíska forystu og samstöðu í Evrópu. En auðvitað er það þannig að þó að Þjóðverjum og Frökkum og fleirum þyki þetta hundfúlt þá er það bara kalt mat að þetta sé skárra heldur en að gera ekki neitt og horfa á ekki bara Grikkland fari illa heldur fleiri lönd og þá yrði tapið miklu meira fyrir Þjóðverja og fleiri.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×