Uppgjör norska olíurisans Statoil fyrir fjórða ársfjórðung á síðasta ári hefur valdið vonbrigðum. Hagnaðurinn var nokkuð undir væntingum fjárfesta og hefur niðurstaðan valdið því að hlutir í félaginu hafa lækkað um 3% í morgun. Sú lækkun leiddi til þess að vísitalan í kauphöllinni í Osló hóf daginn í rauðum lit.
Rekstrarhagnaður Statoil á fjórðungnum nam tæpum 41 milljarði norskra kr. eða yfir 800 milljörðum kr. Hinsvegar áttu sérfræðingar von á að hagnaðurinn yrði yfir 43 milljarðar norskra kr. Um er að ræða mun meiri hagnað en á sama tímabili árið áður en þá nam hann 34,3 milljörðum norskra kr. Ástæðan er mun hærra olíuverð.
Forráðamenn Statoil reikna með að olíuframleiðsla þeirra í ár verði á pari við síðasta ár. Hinsvegar minnkaði olíuframleiðslan í fyrra miðað við árið 2009. Statoil er því í mikilli þörf á að finna nýjar olíulindir til að halda uppi rekstrarhagnaði sínum.