Viðskipti innlent

EFTA dómstóll sker úr um hvort slitameðferðin sé lögleg

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur staðfesti í dag að leita beri ráðgefandi álits á því hvort rétt hafi verið staðið að slitameðferð Kaupþings. Tvær spurningar verða lagðar fyrir dóminn.

Málið snýst um að Anglo Irish Bank Corporation sem nú heitir Irish Bank Resolution Corporation lýsti kröfu í þrotabú Kaupþings eftir að kröfulýsingarfrestur var liðinn. Ágreiningur slitastjórnar Kaupþings við írska bankann lýtur hins vegar að því hvort slitastjórn Kaupþings hafi verið skylt samkvæmt íslenskum lögum, þar á meðal á grundvelli reglna sem leiddar verði af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, að upplýsa varnaraðila, sem þekktan lánardrottinn búsettan í aðildarríki á svæðinu, um slit Kaupþings, hvenær kröfulýsingarfrestur endaði og hverjar afleiðingar það gæti haft að kröfu yrði ekki lýst á hendur honum innan frestsins. Þá greinir aðila jafnframt á um hvort slitastjórninni hafi verið skylt, úr því að írska bankanum var ekki sérstaklega tilkynnt um slitin, að taka kröfulýsingu hans gilda við slitameðferð Kaupþings þótt hún hafi borist eftir að fyrrgreindum fresti lauk.

Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar verður leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:

1. Ef misræmi er milli texta samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eða reglna, sem á honum byggja, á mismunandi tungumálum þannig að efni einstakra ákvæða eða reglna er óljóst, hvernig ber að leiða efni þeirra í ljós svo að beita megi þeim við lausn ágreiningsmála?

2. Að teknu tilliti til svars við spurningu 1, samrýmist það 1. mgr. 14. gr. tilskipunar 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana að í lögum ríkis, sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sé það lagt í vald slitastjórnar eða annars þar til bærs stjórnvalds eða sýslunarmanns að ákveða hvort upplýsa skuli um þau atriði, sem þar eru greind, með auglýsingu, birtri erlendis, í stað sérstakrar tilkynningar til hvers og eins þekkts lánardrottins?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×