Handbolti

Strákarnir slátruðu Norðmönnum í seinni hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson var frábær í kvöld og skoraði sjö mörk.
Snorri Steinn Guðjónsson var frábær í kvöld og skoraði sjö mörk. Mynd/Valli

Ísland braut blað í sögu sinni í kvöld er liðið vann sinn fimmta leik í röð á HM í Svíþjóð. Í kvöld unnu strákarnir okkar stórbrotinn sigur á Norðmönnum, 29-22.

Ísland er því sigurvegari B-riðils með fullt hús stiga að lokinni riðlakeppninni. Strákarnir fara nú í milliriðilinn í Jönköping með fjögur stig og mæta þar Þýskalandi í fyrsta leik á laugardaginn.

Þessi sigur var einkar dýrmætur því strákarnir eru nú í dauðafæri til að gera enn betri hluti á mótinu og fara enn lengra.

Alveg eins og gegn Austurríki í fyrrakvöld réðust úrslitin á stórbrotinni frammistöðu íslenska landsiðsins í síðari hálfleik. Staðan að loknum hnífjöfnum fyrri hálfleik var 12-12.

Eins og þær tölur bera með sér var gríðarlega hart barist í leiknum. Norðmenn náðu unditökunum í lok fyrri hálfleiks og útlitið var ekki gott þegar að Sverre fékk tveggja mínútna brottvísun í lokin.

Norðmenn fengu tækifæri til að komast tveimur mörkum yfir og komu línumanninum sterka, Bjarte Myrhol, í dauðafæri. Björgvin Páll Gústavsson varði hins vegar frá honum og Ísland komst í sókn. Aron Pálmarsson skoraði þá úr erfiðri stöðu og jafnaði metin.

Það var einmitt þessi barátta á báðum endum vallarins sem gaf tóninn fyrir síðari hálfleik. Strákarnir byrjuðu á því að byggja ógnarsterkarn varnarmúr sem Norðmennirnir náðu ekki að brjóta fyrr en eftir sex mínútur. Þá var Ísland komið þremur mörkum yfir.

Norðmenn náðu aftur með mikilli baráttu að klóra sig aftur inn í leikinn og minnka muninn í eitt mark, 17-16, þegar sautján mínútur voru eftir.

En þá hófst hreint ótrúlegur leikkafli þar sem að íslensku leikmennirnir skiptu um ham og hreinlega slátruðu grunlausum Norðmönnum.

Róbert Gunnarsson, sem hafði haft svo hægt um sig, gaf tóninn með því að fiska fyrst víti og skora svo með skoti aftur fyrir bak í hraðaupphlaupi. Björgvin Páll varði eins og berserkur á þessum kafla og Ísland náði á næstum þrettán mínútum að skora þrettán mörk gegn aðeins fjórum frá Noregi.

Staðan var orðin 28-20 og fjórar mínútur eftir. Leiknum var lokið.

Allir strákarnir áttu frábæran dag. Enginn var þó betri en Snorri og Róbert í sókninni og Björgvin í markinu. Varnarleikurinn var sem fyrr sameiginlegt átak allrar varnarlínunnar en þeir Ingimundur og Sverre sýndu enn og aftur að það eru þeir sem gefa tóninn í þessum ógnarsterka varnarmúr.

Það segir sitt að Noregur skoraði aðeins 22 mörk í leiknum, þar af aðeins tíu í seinni hálfleik. Norðmenn voru einfaldlega mát í kvöld.

Leiknum var lýst beint á Boltavaktinni. Smelltu hér til að lesa hana: Ísland - Noregur.

Umfjöllun er væntanleg innan skamms.

Ísland-Noregur 29-22 (12-12)

Mörk Íslands (Skot): Snorri Steinn Guðjónsson 7/3 (11/3), Alexander Petersson 5 (8), Aron Pálmarsson 4 (9), Guðjón Valur Sigurðsson 3 (6), Ólafur Stefánsson 3 (6), Þórir Ólafsson 3/1 (4/2), Róbert Gunnarsson 2 (2), Ingimundur Ingimundarson 1 (1), Arnór Atlason 1 (3), Björgvin Páll Gústavsson 0 (1).



Varin skot
: Björgvin Páll Gústavsson 21 (42/3, 50%), Hreiðar Levy Guðmundsson 0 (1/1).

Hraðaupphlaupsmörk: 9 (Guðjón Valur 2, Alexander 2, Ólafur 2, Róbert, Ingimundur, Þórir)



Fiskuð víti
: 5 (Róbert 4, Guðjón Valur)

Brottvísanir: 10 mínútur

Mörk Noregs (Skot): Havard Tvedten 7/4 (12/4), Borge Lund 6 (8), Bjarte Myrhol 4 (7), Erlend Mamelund 2 (7), Kjetil Strand 1 ( 1), Frank Löke 1 (3), Kristian Kjelling 1 (5).

Varin skot: Steinar Ege 10/1 (38/5, 26%), Ole Erevik 2 (3/0, 67%).

Hraðaupphlaupsmörk: 3 (Myrhol, Tvedten, Mamelund)



Fiskuð víti
: 4 (Myrhol 2, Strand, Einar Koren)

Brottvísanir: 10 mínútur.

Úrslit, staðan og næstu leikir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×