Viðskipti innlent

Borgaði minnsta kosti tíu milljarða fyrir Byr

Íslandsbanki greiddi að minnsta kosti tíu milljarða fyrir Byr sparisjóð en hingað til hefur ekki verið upplýst um kaupverðið. Við það bætist svo sú upphæð sem greidd er fyrir hlutafé fjármálaráðuneytisins og slitastjórnar Byrs, en það verður ekki gert fyrr en samþykki eftirlitsaðila liggur fyrir.

Að því er fram kemur í skýrslu stjórnar og forstjóra Byrs í ársreikningi félagsins fyrir árið 2010 greiðir Íslandsbanki tíu milljarða fyrir nýtt hlutafé í Byr. Viðskiptablaðið greindi frá þessu á föstudag.

Ásamt þessum hlut kaupir Íslandsbanki hlutafé í eigu Fjármálaeftirlitsins og slitastjórnar Byrs sparisjóðs. Það hlutfé nemur samtals tæpum átta milljörðum að nafnverði. Fjármálaráðuneytið á um það bil níu hundruð milljónir eða ellefu komma sex prósent hlut.

Íslandsbanki hefur hvorki viljað upplýsa fréttastofuna né aðra fjölmiðla um kaupverðið fyrr en samþykki eftirlitsaðila liggur fyrir. Viðskiptablaðið telur það þó ljóst, í kjölfar birtingar á ársreikningi Byrs, að það er að minnsta kosti tíu milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×